Býður sig ekki fram

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mun ekki bjóða sig fram til forseta Íslands að nýju. Þetta tilkynnti Ólafur Ragnar í áramótaávarpi sínu sem sent var út á RÚV í dag.

Hann sagðist hafa leitast við að sinna starfinu í samræmi við samvisku sína og bestu getu, þó að ákvarðanir hans hefðu á stundum verið erfiðar.

„Það er eðlilegt að við Dorrit séum farin að hlakka til frjálsari stunda,“ sagði Ólafur Ragnar og sagðist hafa íhugað vandlega öll sjónarmið áður en hann tók ákvörðunina.

Hann sagðist hafa í hyggju að efla ýmis hugðarefni sín þegar skyldur þjóðhöfðingjans hvíldu ekki lengur á herðum hans og nefndi þar m.a. þróun samstarfs á norðurslóðum.

„Þessi ákvörðun felur ekki í sér kveðjustund heldur upphaf að annarri vegferð,“ sagði forseti og þakkaði fyrir það traust sem honum hefði verið falið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert