Rannsaka hvarf íslensku konunnar

Frá miðborg Portland, fjölmennustu borgar sambandsríkisins Oregon.
Frá miðborg Portland, fjölmennustu borgar sambandsríkisins Oregon. Reuters

Lögreglan í Portland í Bandaríkjunum hefur falið rannsóknarlögreglumanni að rannsaka hvarf íslenskrar konu snemma árs 1952. Konan, Ragna Esther Sigurðardóttir Gavin, fluttist til Portland árið 1946 en hún var 23 ára þegar síðast sást til hennar sex árum síðar.

Fram kemur í umfjöllun fréttavefjarins Oregonlive að rannsóknarlögreglumaðurinn Carol Thompson hafi hafið rannsókn málsins sem tekið var upp í fyrrasumar.

Ber saman erfðaefni

Haft er eftir Thomspon að það sem hægt sé að gera í stöðunni sé að afla erfðaefnis frá skyldmennum Esther Gavin og skrá það hjá stofnun við University of North Texas.

En stofnunin aðstoðar sérfræðinga við að bera saman erfðaefni á skrá við erfðaefni úr líkamsleifum sem ekki hefur tekist að bera kennsl á.  

Málið hefur vakið mikla athygli í Portland og að sögn vefjarins gerði dagblaðið The Oregonian því ítarleg skil í fimm greina syrpu, undir yfirskriftinni The War Bride, eða Stríðsbrúðurin á íslensku.

Harmsaga brúðarinnar

Forsaga málsins er sú að Esther Gavin kvæntist bandaríska hermanninum Larry Gavin skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina og fluttist um leið frá Reykjavík til Portland árið 1946, árið eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk.

Larry Gavin reyndist ofbeldismaður og misþyrmdi konu sinni. Fimm árum eftir að Esther Gavin fluttist út var börnunum komið fyrir á barnaheimilinu Waverly Bay Home í suðausturhluta Portland á meðan hún jafnaði sig eftir líkamsmeiðingar.

Esther Gavin skildi síðan við mann sinn og fékk fullt yfirræði yfir börnunum. Sökum þess að Esther Gavin gat ekki greitt fyrir umönnun barna sinna var þeim komið fyrir í vörslu réttarins. Fór svo að lokum að Jeanne og Benson Allen ættleiddu börnin. Er afa Bensons, Simon Benson, lýst sem föður borgarinnar.

Hafði engar vísbendingar í höndunum

Áratugum síðar hafði fjölskylda Esthers Gavin samband við Melissu Gavin, barn Larry Gavin úr öðru hjónabandi hans. Melissa Gavin lagði rannsókninni lið og hafði samband við lögregluyfirvöld í Portland.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Dennis Baker tók við málinu en hann var þá sestur í helgan stein. Eftir að Baker hafði rætt við lögreglumenn, leitað í gagnagrunnum og spurst fyrir um málið hjá öðrum löggæslustofnunum hafði hann engar haldbærar vísbendingar um afdrif Esther Gavin í höndunum.

Tjáði Baker áðurnefndri Melissu Gavin að stærsta hindrunin við rannsókn málsins varðaði aldur þess, þ.e. hversu langt væri um liðið síðan Esther Gavin hvarf sporlaust.

Hitti stóru systur barnanna

Melissa náði sambandi við Robert Benson Allen, son Esther Gavin, en hann er 64 ára og búsettur í Oregon City. Debra, dóttir Esther Gavin, lést hins vegar árið 1999, 49 ára að aldri.

Á föstudaginn var hitti Melissa Gavin svo Patti Allen en sú síðarnefnda ólst upp sem stóra systir ættleiddu barnanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert