„Þetta var ófremdarástand“

Ófærð í Reykjavík
Ófærð í Reykjavík mbl.is/Sigurgeir

„Þetta var ófremdarástand. Menn gerðu sitt besta og við höfum lagt okkur fram við að skapa ekki slysahættu fyrir íbúa,“ sagði Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, um hálkuvarnir og snjómokstur, í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld. Hann segir að skoðað verði að koma á fót neyðaráætlun til að grípa til í aðstæðum sem þessum.

Jón sagði ástandið hafa verið alvarlegt, og það væri alvarlegt ef fólk dytti og slasaði sig. Spurður hvort ekki hefði verið betra að sanda og salta um liðna helgi sagðist Jón treysta sérfræðingum borgarinnar, þeim sem starfa við og hafa reynslu af snjómokstri og því tengdu.

Hann sagði að sérfræðingar hefðu talið að söndun og söltun hefði skilað mjög litlum árangri og á mjög litlu svæði, og því var ákveðið fara ekki í slíkar aðgerðir. „Þetta er ekki vegna þess að menn nenni þessu ekki, þetta er faglegt mat þeirra sem hafa reynslu í þessu.“

Jón mærði vinnu þeirra sem staðið hafa í snjómokstri að undanförnu og sagði þá fá litla viðurkenningu fyrir gríðarlega mikið starf. Hann tók dæmi um að eina nóttina hefði snjóað mikið og þá hefði verið skafið af helstu götum. Undir morgun hefðu starfsmenn farið heim en þá hefði snjóað áfram. Þegar íbúar Reykjavíkur vöknuðu svo til vinnu hefði verið búið að snjóa yfir allt sem var skafið.

Þá sagði Jón að hugsanlega mætti gera betur og farið yrði yfir alla verkferla. „Hugsanlega verðum við að setja upp einhvers konar neyðaráætlun.“

Jón Gnarr, borgarstjóri.
Jón Gnarr, borgarstjóri. Morgunblaðið/Sigurgeirs
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert