Hætta þátttöku í starfshópi ráðherra

Öryrkjar vilja að skerðingar á almannatryggingum verði dregnar til baka.
Öryrkjar vilja að skerðingar á almannatryggingum verði dregnar til baka. mbl.is/Golli

Öryrkjabandalagið hefur hætt störfum í starfshópi sem velferðarráðherra skipaði á síðasta ári um endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Garðar Sverrisson, annar af tveimur fulltrúum Öryrkjabandalagsins, segir engan tilgang í að halda þessu starfi áfram vegna afstöðu stjórnvalda.

Í starfshópnum eru fulltrúar allra þingflokka, auk fulltrúa öryrkja og eldri borgara. Formaður hópsins er Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður. Í fréttatilkynningu velferðarráðuneytisins frá því í apríl í fyrra segir að starfshópnum sé ætlað að skila drögum að frumvarpi að nýjum lögum um lífeyristryggingar fyrir lok ársins. Starfshópurinn hefur hins vegar ekki enn skilað niðurstöðu.

Starfshópurinn hefur haft það að markmiði að gera breytingar á almannatryggingakerfinu, en þó þannig að útgjöld almannatrygginga aukist ekki. Garðar segir að krafa öryrkja sé að þær skerðingar sem gerðar hafi verið á almannatryggingakerfinu á síðustu árum gangi til baka. Síðan sé hægt að tala um breytingar. Hann segir að ef svokölluð núlllausn eigi að byggjast á núverandi kerfi sé verið að festa skerðingarnar í sessi. Öryrkjar geti ekki tekið þátt í vinnu sem byggist á slíkri forsendu.

„Markmið Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) er að bæta lífskjör öryrkja. Í því sambandi skiptir meginmáli sú fjárhæð sem kemur í hlut öryrkja, en ekki hvort hún er greidd úr einum bótaflokki eða fleirum,“ segir í bókun sem fulltrúar Öryrkjabandalagsins lögðu fram á fundi starfshópsins í morgun.

„Fjórða árið í röð, allt frá 1. janúar 2009, hækka ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar sem eiga að vernda afkomu lífeyrisþega. Lífeyrisgreiðslur ná því hvorki að halda í við verðlagshækkanir né launaþróun síðustu ára. Þessu til viðbótar jukust tekjutengingar verulega þann 1. júlí 2009. Af þeim sökum hafa margir lífeyrisþegar orðið fyrir enn frekari skerðingum.

Lífeyrisþegar urðu fyrstir fyrir skerðingum strax í upphafi kreppunnar og þá með sérstöku loforði um að kjör þeirra yrðu leiðrétt um leið og land færi að rísa á ný. Þá var talað um þriggja ára tímabil sem nú er liðið. Nú eru horfur í efnahagsmálum jákvæðar og tími til kominn að leiðrétta kjör öryrkja.

Í ljósi þessa er það lágmarkskrafa ÖBÍ að stjórnvöld skili öryrkjum sem fyrst því sem þeim ber skv. lögum um almannatryggingar áður en hugað verður að uppstokkun á núverandi bótakerfi. Þessu til viðbótar þarf að leiðrétta frítekjumörk og tekjuviðmið og draga til baka þær skerðingar sem settar voru um mitt ár 2009.

Án leiðréttinga í þá veru sem að framan eru raktar er ábyrgðarlaust af hálfu ÖBÍ að taka frekari þátt í vinnu við svonefnda endurskoðun almannatryggingalaga, enda sé henni þá augljóslega ætlað að festa í sessi þær alvarlegu skerðingar sem stjórnvöld hafa kosið að láta öryrkja bera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert