Mikill viðbúnaður í Hestfirði

Hestfjörður.
Hestfjörður. www.mats.is

Mikill viðbúnaður er vegna umferðarslyss sem varð í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi í kvöld. Þar fór tankbíll út af veginum og hafnaði tankurinn á hliðinni. Um 34.000 lítrar af bensíni eru í tanknum og hefur hluti þess lekið út. Menn óttast að umhverfisslys hafi orðið og þá er sprengihætta talin vera mikil.

Ekki liggur fyrir hversu mikið af bensíni hefur lekið en veginum hefur verið lokað vegna lekans og vegna sprengihættu. Búið er að kalla út allt tiltækt lið til að athuga aðstæður og hefja hreinsunarstörf. Menn hafa m.a. verið í sambandi við slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vegna málsins.

Aðstæður á vettvangi eru slæmar; myrkur, rigning og fljúgandi hálka.

Ökumaður bifreiðarinnar, sem er frá Skeljungi, var einn á ferð og missti hann stjórn á henni í hálku með þeim afleiðingum að bifreiðin valt og stendur hún upp á endann. Ökumaðurinn var fluttur til Ísafjarðar til aðhlynningar en er lítið meiddur.

„Það verður að kalla til sérfræðinga til þess að fara í það að ná þessu bensíni upp,“ segir Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Ísafirði, í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann að það liggi ekki fyrir hversu mikið eldsneyti hafi lekið. „Það er myrkur og enginn þorir að koma nálægt þessu,“ segir hann. Menn óttist umhverfisslys og þá sé sprengihætta mikil.

Lögreglan og slökkvilið er á staðnum og hefur lögreglan lokað þjóðveginum. Von er á sérfræðingum frá Vegagerðinni, Umhverfisstofnun og olíufélögum.

Tilkynning barst kl. 21:12.

Tankbíll fór út af í Hestfirði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert