Vanefndir stjórnvalda valda vonbrigðum

Trúnaðarráð VR lýsir miklum vonbrigðum með þær vanefndir sem hafi orðið á loforðum ríkisstjórnar Íslands, sem gefin hafi verið í yfirlýsingu hennar frá 5. maí 2011, í tengslum við undirritun kjarasamninga.

„Á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið við öll ákvæði samninganna, vantar mikið upp á að ríkisstjórnin standi við loforð sín. Er það í annað skiptið sem það gerist frá því að ríkisstjórnin gekk á bak orða sinna í kjölfar hins svokallaða stöðugleikasáttmála,“ segir í yfirlýsingu sem trúnaðarráðið samþykkti á fundi sínum í dag.

Þá segir að það sé óþolandi að fjölmennasta stéttarfélag landsins geti ekki treyst þeim yfirlýsingum sem ríkisstjórnin gefi frá sér. Það lýsi alvarlegum trúnaðarbresti sem ekki verði unað við.

„Trúnaðarráð VR krefst þess að ríkisstjórn Íslands bregðist tafarlaust við og bæti úr augljósum vanefndum sínum og að:

  • Hækkun almannatryggingabóta haldist í hendur við hækkun lægstu launa, eins og lofað var.
  • Horfið verði frá ósanngjarnri og vanhugsaðri skattlagningu á lífeyrissjóði fólksins í landinu upp á 2.800 milljónir króna, sem að öllum líkindum felur í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
  • Endurskoðun fari fram á tekju- og eignatengingu vaxta- og barnabóta eins og lofað hafði verið í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012.
  • Breytingar verði gerðar á lögum um opinber innkaup til þess að tryggja betur eðlilegt samkeppnisumhverfi og réttindi launafólks og komið verði í veg fyrir kennitöluflakk.
  • Hefja skuli við fyrsta tækifæri tilraunaverkefni sem feli í sér aðkomu stéttarfélaga að þjónustu við atvinnuleitendur.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert