Frávísunartillaga lögð fram

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Þingmaður VG sagði í fréttum Sjónvarpsins, að þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki mundu leggja fram dagskrártillögu á Alþingi. Sú tillaga væri um vísað yrði frá þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að ákæra Alþingis á hendur Geir H. Haarde yrði felld niður.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði í sjónvarpsfréttunum að hann reiknaði með að meirihluti væri fyrir frávísunartillögunni.

Tillaga Bjarna verður á dagskrá Alþingis í fyrramálið og fer fyrri umræða þá fram. Verði dagskrártillagan um frávísun samþykkt í kjölfarið mun þingsályktunartillagan ekki fara til síðari umræðu.

Sjónvarpið sagði að talsverðu gæti skipt hvaða þingmenn sæktu þingfund á Alþingi á morgun. Vísað var til þess, að Össur Skarphéðinsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmenn Samfylkingarinnar, væru í útlöndum. Einnig væri óvíst hvort Björgvin G. Sigurðsson, flokksbróðir þeirra, sækti fundinn á morgun. Þá væri Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, með fjarvistarleyfi. Allir þessir þingmenn greiddu atkvæði gegn málshöfðun á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert