Tillögur standi sem mest óbreyttar

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ómar

Mikilvægt er að tillögur stjórnlagaráðs fái að standa sem mest óbreyttar og þjóðin fái að greiða um þær atkvæði áður en þær fá þinglega meðferð. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag. Hún segist vona að hægt verði að afgreiða málið frá Alþingi fyrir lok kjörtímabilsins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, vakti máls á endurskoðun stjórnarskrárinnar í undirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Hann sagði alla þá fræðimenn sem um málið hefðu fjallað telja tillögur stjórnlagaráðs ófullburða drög að nýrri stjórnarskrá. Þá sagði hann umræðuna um málið hulið slíkri þoku að skýra þyrfti línur.

Jóhanna sagði tillögurnar til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem farið væri yfir umsagnir. Framhaldið færi svo eftir niðurstöðu nefndarinnar og hversu fljótt henni tækist að vinna málið. Tækist það á næstu vikum og samstaða næðist myndi nefndin gera athugasemdir og lagfæringar eftir atvikum á tillögunum en að því búnu senda þær aftur stjórnlagaráði til umsagnar.

Eftir að stjórnlagaráð hefur tekið tillögur sínar til umsagnar sér Jóhanna fyrir sér að útbúin verði þingsályktunartillaga um að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún sagðist þó telja málið of skammt á veg komið til að það gæti verið samhliða forsetakosningum. Þá ætti að skoða hvort þjóðin ætti að greiða atkvæði um tillögurnar kaflaskipt. Eftir það kæmi málið aftur inn í þingið í frumvarpsformi þar sem það yrði afgreitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert