Fréttaskýring: Frumvarp um flugvöll til framtíðar

Þingmenn leggja til að flugvöllurinn verði áfram miðstöð innanlandsflugs, enda …
Þingmenn leggja til að flugvöllurinn verði áfram miðstöð innanlandsflugs, enda tengi hann borgina og landsbyggðina. mbl.is/ÞÖK

Jón Gunnarsson og ellefu aðrir stjórnarandstöðuþingmenn, hafa lagt fram frumvarp um að Reykjavíkurflugvöllur verði miðstöð innanlandsflugs.

Markmiðið er að tryggja „tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins,“ eins og segir í frumvarpinu. Einnig að flugvöllurinn verði varaflugvöllur fyrir innanlandsflug og millilandaflug. Í greinargerð segir m.a. að brýnt sé að marka stefnu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Jón segir marga stjórnarþingmenn því fylgjandi og telur að frumvarpið njóti stuðnings meirihluta þingmanna.

Verði frumvarpið samþykkt þýðir það í raun að Alþingi hafi afskipti af skipulagsmálum í Reykjavík. Jón sagði að samkvæmt ákvæðum laga um landsskipulag gæti þingið hlutast til um skipulagsmál í sveitarfélögum í þágu almannahagsmuna. Hann sagði að sér væri ekki vel við að þurfa að stíga slíkt skref því hann teldi að skipulagsvaldið ætti að vera hjá sveitarfélögunum.

„En þegar ríkir almannahagsmunir eru í húfi finnst mér mega réttlæta það og þannig er það í þessu tilviki. Ég sé ekki neina aðra leið í stöðunni til að leysa úr þeirri óvissu sem er um starfsemi Reykjavíkurflugvallar en þessa,“ sagði Jón.

Valkosturinn er Keflavík

Hann sat á fimmtudag málþing Háskólans í Reykjavík (HR) um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

„Þar var bara ein niðurstaða: Starfsemi Reykjavíkurflugvallar leggst af árið 2016 miðað við núverandi stefnu borgaryfirvalda,“ sagði Jón. Hann sagði það hafa komið skýrt fram að sérfræðingar væru sammála um að eini valkosturinn við Reykjavíkurflugvöll væri Keflavíkurflugvöllur. Hvorki Hólmsheiði né Löngusker væru lengur inni í myndinni sem flugvallarstæði fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll. Þá kom það skýrt fram hjá fulltrúum Reykjavíkurborgar að það væri engin óvissa fyrir hendi varðandi framtíð flugvallarins. Borgin hefði tekið ákvörðun hvað hann varðaði. Jón sagði stefnt að því að minnka flugvöllinn árið 2016 þannig að eftir það yrði bara ein flugbraut.

„Það kom skýrt fram hjá sérfræðingum að þá yrði flugvöllurinn ekki lengur starfhæfur,“ sagði Jón. Hann sagði að með einungis einni flugbraut uppfyllti Reykjavíkurflugvöllur ekki lengur kröfur og gæti ekki þjónað hlutverki sínu sem miðstöð innanlandsflugs. Flugvöllurinn yrði því í raun lagður af árið 2016 miðað við þetta.

„Ég trúi ekki að það muni gerast, en það er ekki seinna vænna að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að þessar hugmyndir nái fram að ganga,“ sagði Jón. Hann taldi að borgin hefði leynt og ljóst unnið að því að láta flugvöllinn fara og nefndi til dæmis staðsetningu Háskólans í Reykjavík, nýjan Landspítala og svo að ekki megi lækka nokkur tré í Öskjuhlíð til að auka flugöryggi.

Jón sagði Reykjavíkurflugvöll fyrst og fremst vera mikilvæga tengingu landsbyggðarinnar við höfuðborgina og þá þjónustu sem þar væri til staðar. Hann sagði það vera byggðamál að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram og lið í því að halda öllu landinu í byggð.

Vill ræða innanlandsflug

Ásmundur Einar Daðason alþingismaður hefur óskað eftir fundi í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til þess að ræða stöðu og framtíð innanlandsflugs á Íslandi.

Ásmundur nefnir ráðstefnuna sem haldin var á fimmtudag um framtíð innanlandsflugsins í beiðni sinni um fundinn.

Hann óskar eftir því að á fundinn komi eftirtaldir gestir: Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Isavia, formaður samgöngunefndar Reykjavíkurborgar, sviðsstjóri skipulagsmála hjá Reykjavíkurborg og fulltrúi innanríkisráðuneytisins sem hefur með flugsamgöngur að gera. Einnig fulltrúar þeirra íslensku sveitarfélaga sem áætlunarflug er flogið til.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert