Y-listinn ekki með í meirihluta

Kópavogur
Kópavogur Árni Sæberg

Y-listi Kópavogsbúa í Kópavogi hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að listinn sjái ekki fram á að geta myndað starfhæfan meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Næstbesta flokknum í bæjarstjórn. Skorar Y-listinn á framboð í Kópavogi að mynda nokkurs konar þjóðstjórn.

„Saga og áhrif einstakra stjórnmálamanna í bæjarpólitík Kópavogs auk fjölda lítilla stjórnmálaflokka, þar sem fjögur framboð eru með einn mann hvert, virðist gera það að verkum að erfitt er að mynda meirihluta þar sem sex eða fleiri bæjarfulltrúar þurfa að ná saman um stjórn, stefnu og skipan í ráð, nefndir og bæjarstjórastól.

Í stjórnmálum Kópavogs er þó mikið af hæfu fólki í öllum flokkum og á öllum listum sem vill láta gott af sér leiða fyrir bæinn sinn. Nú ber svo við, ólíkt því sem gerist eftir kosningar, að öll ráð og allar nefndir bæjarins eru fullskipaðar og því er ef til vill einstakt tækifæri til að gefa þessu góða fólki svigrúm til að ganga frjálst og óháð til hvers máls sem fyrir stjórnsýsluna kemur. Saman verðum við að efla stefnumótun í málefnum Kópavogsbæjar og hafa skýra framtíðarsýn.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum kölluðu bæjarbúar á umbætur, en þeim verður einungis framfylgt með endurnýjun manna og breyttu skipulagi; með því að hugsa nýja hugsun.

Það er því áskorun okkar til allra framboða í Kópavogi að mynda nokkurs konar þjóðstjórn í Kópavogi þar sem allir aðilar taka afstöðu til einstakra málefna óháð veru í meiri- eða minnihluta í bæjarstjórn og sameinist þannig um að vinna bænum allt í haginn í hverju máli fyrir sig,“ segir í tilkynningunni frá Y-lista.

Tilkynnt var á föstudag að viðræður væru hafnar á milli fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Y-lista og Næstbesta flokksins um myndun meirihluta í bæjarstjórnar Kópavogs. Áður mynduðu Samfylking og VG meirihluta með Y-lista og Næstbesta flokknum en upp úr því samstarfi slitnaði í síðustu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert