Hallgrímur fórst

Hallgrímur SI-77.
Hallgrímur SI-77. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Skuttogarinn sem talið er að hafi sokkið í sjó vestur af Noregi í dag heitir Hallgrímur SI-77 og var í eigu útgerðarfélagsins Ásvalla á Siglufirði. Skipið hafði verið selt til Noregs í brotajárn og var á leið þangað. Fjórir menn voru um borð og er talið að þeir séu allir íslenskir. Einum manni var bjargað úr sjónum og er hann nú kominn á sjúkrahús í Álasundi. Togarinn var smíðaður árið 1974.

Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni hefur lögreglan nú náð sambandi við aðstandendur mannanna fjögurra sem voru um borð í skipinu sem sendi í dag neyðarkall 150 sml NV af Álasundi í Noregi. Björgunarþyrla fann einn mann á lífi sem verður fluttur á sjúkrahús í Álasundi. Þriggja er enn saknað.

Björgunarbátur fannst mannlaus

Að sögn norsku björgunarmiðstöðvarinnar fannst mannlaus björgunarbátur á svæðinu auk braks, sem talið er vera úr togaranum.

Aðstandendum mannanna er bent á aðstoð í hjálparsíma Rauða krossins 1717, einnig er opið hús í kvöld á Landsskrifstofu Rauða krossins við Efstaleiti 9, segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert