Komin með átta þingmenn

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segist í samtali við mbl.is vera komin með undirskriftir átta þingmanna fyrir því að kosinn verði nýr forseti Alþingis í stað Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Þar af eru þrír þingmenn Hreyfingarinnar að henni meðtaldri. Hún segist hins vegar ekki hafa getað sinnt undirskriftasöfnuninni mikið að undanförnu.

Samkvæmt 6. grein þingsskapalaga er forseti Alþingis kosinn til að gegna embætti sínu út viðkomandi kjörtímabil. Kjósa má þó hvenær sem er nýjan forseta ef meirihluti þingmanna oskar eftir því.

Birgitta fór af stað með undirskriftasöfnunina í kjölfar þess að hafnað var á Alþingi síðastliðinn föstudag að taka af dagskrá þingsins þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að landsdómsákæra á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, yrði dregin til baka. Ásta Ragnheiður hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir að hafa samþykkt að taka málið á dagskrá og ekki síst af þingmönnum Hreyfingarinnar.

„Sjálfstæðisflokkurinn er að sjálfsögðu ekki með. Ég er bara búin að tala við einn þingmann í Framsókn en meirihlutinn af þessu eru stjórnarþingmenn náttúrlega,“ segir Birgitta aðspurð hvort þingmenn allra flokka sé að finna á listanum. Spurð að því hvaða þingmenn sé um að ræða segir hún: „Ég er búin að segja það að ég ætla ekki að gefa upp hverjir eru á þessum lista nema ég nái 32 nöfnum.“

Spurð hvort hún hafi ákveðið þetta fyrirkomulag sjálf eða hvort þeir þingmenn sem hafi skráð sig á listann hafi sett það sem skilyrði segir Birgitta að það hafi einungis verið hennar ákvörðun. Aðspurð hvort gegnsæi eigi ekki við í því sambandi segir hún: „Mér finnst bara óþarfi að búa til einhverja óþarfa úlfúð á milli fólks þó svo að sumir líti á það sem sitt helsta markmið.“

Birgitta segist vilja virða það að skoðanir séu misjafnar innan stjórnmálaflokkanna um málið og ef þeir sem skráð hafi sig á undirskriftalistann vilji upplýsa um það þá geti þeir gert það. Ef þeir vilji það ekki geri þeir það ekki. Aðspurð segir hún þó engan af þeim þingmönnum sem skráð hafi sig á listann hafa óskað eftir að því yrði haldið leyndu.

„Þetta er vinnuskjal. Þegar við erum búin að klára vinnuskjalið þá kemur það allt í ljós. Það er almenn hefð fyrir því í stjórnsýslunni að birta ekki vinnuskjöl opinberlega,“ segir Birgitta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert