Útlit fyrir mikla ófærð á höfuðborgarsvæðinu

Veðurstofan hefur varað við stórhríð á Vestfjörðum í kvöld og í nótt og svo hvessir á Vesturlandi  og verður allhvöss norðanátt í kvöld og í nótt. Á höfuðborgarsvæðinu verður einhver ofankoma og töluverður skafrenningur en mikið er af lausasnjó og má því búast við mikilli ófærð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

„Fólk er því beðið um að vera ekki á ferðinni nema á vel búnum bílum en gera ella ráðstafanir til að komast leiðar sinnar á annan hátt, t.d. með því að nýta sér almenningssamgöngur þar sem þær eru til staðar.

Einnig skal sérstaklega bent á að Veðurstofan hefur varað við snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum og Norðurlandi. Einnig geta flóð fallið víðar, sérstaklega þar sem fólk er á ferðinni, t.d. á vélsleðum.
Því ætti enginn að vera á ferð í fjalllendi nema kunna að meta snjóflóðahættu og vera með snjóflóðaýli, stöng og skóflu.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill benda ferðalöngum á að undirbúa sitt ferðalag vel. Aldrei á að leggja af stað nema kanna færð á vegum og veðurspá auk þess að skoða heimasíðuna Safetravel.is. Þar má finna fréttir af ferðaaðstæðum um allt land, búnaðarlista, heilræði og síðast en ekki síst, skilja eftir ferðaáætlun,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert