Héraðsdómur fór ekki að lögum

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir fyrrum framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landsbankans þar sem héraðsdómur var ekki fjölskipaður í málinu líkt og lög um meðferð sakamála kveður á um.

Haukur Þór Haraldsson, fyrrum framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands, var í júní í fyrra fundinn sekur um fjárdrátt í Héraðsdómi Reykjavíkur og dæmdur í tveggja ára fangelsi. Hann hafði áður verið sýknaður í héraði en Hæstiréttur Íslands ómerkti þá niðurstöðu og sendi málið aftur til héraðsdóms til efnislegrar meðferðar.

Haukur var ákærður fyrir að hafa þann 8. október 2008 í kjölfar bankahrunsins millifært 118 milljónir af reikningi félagsins NBI Holdings Ltd. inn á hans eigin reikning. Haukur stýrði félaginu sem var sjálfeignarsjóður á bresku Ermasundseyjunni Guernsey á vegum Landsbankans.

Skýring Hauks á framgöngu sinni var sú að hann hafi viljað bjarga umræddu fé frá því að verða eins og hver önnur krafa í þrotabú Landsbankans þegar það yrði tekið til skipta.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar í júlí 2011. Haukur krafðist  þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Málinu vísað heim í hérað enn á ný

Í dómi Hæstaréttar er vísað til laga um meðferð sakamála. Samkvæmt þeim skulu þrír héraðsdómarar skipa dóm í máli við nýja meðferð þess þegar fyrri héraðsdómur hefur verið ómerktur á grundvelli ákvæðisins. Þessa var ekki gætt þegar mál þetta kom öðru sinni til meðferðar í héraði og úr því var leyst. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá og með þinghaldi 14. júní 2011 og vísa því enn á ný heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda Hauks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert