Tíu mínútna umræða um lagningu raflína í jörð

Raflínur í Hvalfirði.
Raflínur í Hvalfirði. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Enginn tók til máls við síðari umræðu um þingsályktunartillögu umhverfis- og samgöngunefndar í dag, en hún felur í sér að iðnaðnarráðherra verði gert, í samráði við umhverfisráðherra, að skipa nefnd sem móti stefnu um lagningu raflína í jörð. Atkvæðagreiðsla um málið fer því að öllum líkindum fram á morgun.

Raunar hefur aðeins einn þingmaður tjáð sig um tillöguna, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar, sem gerði það sem fyrsti flutningsmaður 15. desember síðastliðinn. Guðfríður Lilja talaði þá í tíu mínútur og ekki virðist sem fleiri mínútum verði varið í umræðu um tillöguna.

Í greinargerðinni segir að umhverfis- og samgöngunefnd þyki tímabært að flytja aftur tillögu um stefnumótun varðandi lagningu raflína í jörð og þau sjónarmið sem taka ber mið af hverju sinni við ákvarðanir þar um. Mikilvægt sé að fyrir liggi sýn til framtíðar um hvernig þessum málum skuli helst háttað.

„Á undanförnum árum hefur orkuframleiðsla á Íslandi aukist mjög og jafnframt gagnrýni á neikvæð umhverfisáhrif hennar. Einn þáttur þeirra áhrifa er sjónmengun af völdum háspennulína og hefur sú krafa orðið háværari að jarðstrengir séu nýttir í stað loftlína. Mikilvægt er að fyrir liggi pólitísk stefnumörkun um með hvaða hætti og á hvaða forsendum skuli stefnt að lagningu raflína í jörð og til hvaða þátta skuli sérstaklega taka tillit í þeim efnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert