Vilja ekki lögfesta gallana

TF-LIF á björgunaræfingu með sjómönnum.
TF-LIF á björgunaræfingu með sjómönnum. mbl.is/Dagur

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátasjómanna, segir að sambandið hafi ekki stutt það að lögfest verði að flotbjörgunargallar verði um borð í öllum smábátum. Hann segist þó vita til þess að slíkir gallar séu um borð í mörgum bátum.

Fram kom á Alþingi í morgun að siglingaráð hafi mælt með því að reglugerði verði breytt þannig að öll fiskiskip verði með flotbjörgunargalla um borð. Reglugerðinni hefur hins vegar ekki verið breytt.

Örn sagði að þegar smábátar sökkvi gerðist það yfirleitt á mjög skömmum tíma og á skemmri tíma en þegar um stærri skip er að ræða. Hann sagðist vera þeirrar skoðunar að sjómenn ættu ekki að þurfa velta fyrir sér hvort þeir ættu að klæða sig í björgunargalla eða fara í björgunarbát. Björgunarbáturinn ætti alltaf að vera fyrsti kostur. Það tæki tíma að klæða sig í björgunargalla og í mörgum tilfellum erfitt að koma þeim fyrir á aðgengilegum stað í smábát.

Örn sagði að þegar menn væru komnir í björgunargalla gætu þeir ekkert gert nema að láta sig falla í sjóinn því menn gætu lítið hreyft sig í göllunum og erfitt væri að komast um borð í björgunarbát í slíkum galla.

Örn sagði að um borð í öllum smábátum væru vinnuflotgallar og þeir væru gagnlegir. Í mörgum smábátum væru hins vegar flotgallar, sérstaklega þar sem 3-4 menn væru um borð. Landssamband smábátaeigenda hvetti sjómenn til að vera með slíka galla þó að það væri ekki tilbúið til að fallast á að gallarnir yrðu lögbundnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert