Hafna vangaveltum um lögbrot

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í Húsi verslunarinnar.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í Húsi verslunarinnar. mbl.is

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) hafnar afdráttarlaust þeim vangaveltum sem fram hafa komið um að sjóðurinn, ásamt öðrum lífeyrissjóðum, hafi brotið lög með gerð gjaldmiðlavarnarsamninga.

Í fréttatilkynningu frá LV segir að samningar þeir sem hér um ræðir séu svokallaðir afleiðusamningar. Heimild til slíkra samninga sé í lífeyrissjóðalögunum. „Á grundvelli þeirra var heimild til gjaldmiðlavarnasamninga í fjárfestingarstefnu sjóðsins á hverjum tíma. Útfærsla heimildarinnar var nánar mótuð með stjórnarsamþykktum og ákvörðun stjórnenda sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn hefur nýtt sér gjaldmiðlavarnarsamninga frá 2005,“ segir í tilkynningunni.

Þeir afleiðusamningar sem voru til skoðunar, þ.e. þeir samningar sem LV gerði við viðskiptabankana, hafi verið hefðbundnir framvirkir samningar um sölu á gjaldeyri miðað við gengisvísitölu íslensku krónunnar (GVT). Samningarnir hafi í eðli sínu verið hugsaðir til langs tíma.

„Fjármálaeftirlitinu (FME) hefur frá upphafi verið gerð grein fyrir stöðu þessara samninga á ársfjórðungslegum yfirlitum sem send hafa verið eftirlitinu reglum samkvæmt. FME hefur eðlilega aldrei gert athugasemdir við þessa samninga, enda byggja þeir á lögum,“ segir í frétt LV.

Þá segir að gjaldmiðlavarnir lífeyrissjóðsins hafi byggt á langtímasjónarmiðum í þágu hagsmuna sjóðfélaga en ekki skammtímasjónarmiðum og væntingum um skjótfenginn gróða.

„Gjaldmiðlastýring hefur um langt árabil verið eðlilegur hluti af fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða um allan heim. Þar er grundvallaratriði að tengja saman undirliggjandi eignir og samninga til varnar sömu eignum. Erlend verðbréf í vel dreifðum alþjóðlegum hlutabréfasöfnum hafa verið rúmur þriðjungur eigna lífeyrissjóðsins. Kaupum á hlutabréfum fylgir áhætta sem kemur einkum fram í sveiflum á gengi bréfanna. Þegar hlutabréfin eru erlend bætist við gjaldmiðlaáhætta þar sem skuldbindingarnar gagnvart sjóðfélögum eru í íslenskum krónum. Þá áhættu hefur verið leitast við að takmarka með gjaldmiðlavörnum,“ segir í frétt LV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert