Leiguþyrlan lent í Reykjavík

Benóný Ásgrímsson flugstjóri, Brynhildur Ásta Bartmarz flugmaður og Daníel Hjaltason …
Benóný Ásgrímsson flugstjóri, Brynhildur Ásta Bartmarz flugmaður og Daníel Hjaltason flugvirki. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ný leiguþyrla Landhelgisgæslunnar TF SYN lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 21:30 í kvöld eftir um fjögurra klukkustunda flug frá Færeyjum. Þyrlan er leigð til 12 mánaða af Knut Axel Ugland Holding AS sem einnig á þyrluna TF GNA.

TF-SYN er af gerðinni Aerospatiale Super Puma AS-332 L1 og er sömu tegundar og TF LIF og TF GNA.  

Flugstjóri var Benóný Ásgrímsson en flugmaður var Brynhildur Ásta Bjartmarz og er hún fyrsta konan til að ferjufljúga þyrlu Landhelgisæslunnar til landsins, að því er segir á vef Gæslunnar. Daníel Hjaltason var flugvirki og spilmaður. 

„Ákveðið var að þyrlan fengi íslensku einkennisstafina TF-SYN en loftför Landhelgisgæslunnar hafa jafnan verið nefnd eftir persónum í norrænni goðafræði. Heitir þyrlan eftir gyðjunni Syn sem varnar óviðkomandi inngöngu í hallir ása og mælir á þingum gegn þeim sem henni þykir sanna mál sitt með ýkjum og lygum. Sums staðar er hún kölluð dyravörður Fensala, bústaðar Friggjar.

Síðast bar eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar einkennisstafina TF-SYN en hún kom til landsins 12. janúar 1977. Hefur hún verið á flugsafninu á Akureyri frá árinu 2009,“ segir á Gæsluvefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert