Þór verður minnst fjórar vikur í Noregi

Varðskipið Þór er farið frá landinu að sinni vegna bilunar.
Varðskipið Þór er farið frá landinu að sinni vegna bilunar. Ómar Óskarsson

Varðskipið Þór er nú á leið til Noregs til viðgerðar eins og áætlað var, en brottför tafðist um nokkrar klukkustundir í gær vegna smávægilegrar bilunar. Lagt var upp um hádegisbil en skipinu var fljótlega snúið aftur til Reykjavíkurhafnar.

Að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, kom upp smávægilegt vandamál sem þurfti að laga áður en unnt væri að sigla til Noregs. Þór hafði þá verið bundinn við bryggju í á annan mánuð meðan prófanir voru gerðar á honum vegna bilunar, en óeðlilegur titringur hefur verið í annarri af tveimur aðalvélum skipsins.

Nokkrar klukkustundir tók að komast fyrir bilunina og hélt Þór aftur úr höfn í gærkvöldi. Siglt verður á einni vél og er áætluð koma til Bergen í Noregi á miðvikudag. Búast má við því að viðgerðin taki minnst 4-5 vikur en það gæti þó orðið lengri tími. Áhöfn Þórs flýgur aftur heim til Íslands á föstudag.

Á meðan viðgerðir fara fram á Þór mun varðskipið Ægir sjá um gæslustörf í nánd við landið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert