467 milljónir til listamanna

Listamannalaunum var úthlutað í dag. Myndin er úr safni.
Listamannalaunum var úthlutað í dag. Myndin er úr safni.

467 milljónum var í dag úthlutað til 217 einstaklinga og hópa í formi listamannalauna. Úthlutað er alls 1.600 mánaðarlaunum sem eru 291.649 kr. hver samkvæmt fjárlögum ársins 2012. Alls bárust 639 umsóknir frá einstaklingum og hópum (sviðslist) um starfslaun eða ferðastyrki.

Samkvæmt fréttatilkynningu sem stjórn listamannalauna sendi frá sér í dag hafa úthlutunarnefndir listamannalauna, sem starfa samkvæmt lögum nr. 57/2009 og reglugerð nr. 834/2009, lokið störfum.

Úthlutað er úr sex sjóðum auk þess sem úthlutað er sérstökum framlögum listamannalauna að andvirði eins mánaðar hver. Auk þess fengu nokkrir einstaklingar sérstök framlög.

38 manns sóttu um í listamannasjóð hönnuða, en úthlutað var til 13 aðila í formi 50 mánaða. Meðalúthlutun á mann er 1,1 milljón kr.

Stærstu styrkjunum, í formi 6 mánaðarlauna, fengu Dagný Bjarnadóttir, Hildur Björk Yeoman og Katrín Ólína Pétursdóttir.

54 myndlistarmenn fengu úthlutað

179 sóttu um í listamannasjóð myndlistarmanna og fengu 54 einstaklingar í heildina 435 mánaðarlaun eða að meðaltali um 8 mánuði hver sem gerir 2,3 milljónir á mann. Tveir fá úthlutað í heildina 24 mánuðum, eða tæpum 7 milljónum hvor.

Birgir Snæbjörn Birgisson, Þórunn Maggý Kristjánsdóttir ( Dodda Maggý), Hekla Dögg Jónsdóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Sara Björnsdóttir og Sigurður Guðjónsson fengu öll 12 mánuði úthlutaða.

Hildigunnur Birgisdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Magnús Sigurðarson og Unnar Örn Jónasson Auðarson fengu 18 mánuði hvert.

Hildur Bjarnadóttir og Katrín Sigurðardóttir fengu 24 mánuði hvor.

73 rithöfundar fengu úthlutað

Alls voru til úthlutunar 555 mánuðir til rithöfunda. Úthlutað var alls 534 mánuðum til 73 einstaklinga, en 157 umsóknir bárust. Þetta gera að meðaltali 3,4 mánuði á hvern rithöfund eða 991 þúsund á mann.

Andri Snær Magnason, Auður Jónsdóttir, Bragi Ólafsson, Einar Már Guðmundsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Gyrðir Elíasson, Hallgrímur Helgason, Ingibjörg Haraldsdóttir. Pétur Gunnarsson, Sigurður Pálsson, Sigurjón B. Sigurðsson, Steinunn Sigurðardóttir, Þórarinn Kr. Eldjárn og Þórunn Erlu Valdimarsdóttir fengu 12 mánuði hvert.

Kristín Steinsdóttir og Steinar Bragi Guðmundsson fengu 24 mánuði hvor.

47 milljónir til sviðslistahópa

Sviðslistamenn fá alls 190 mánuði úthlutaða. Umsóknir bárust frá alls 39 hópum og 75 hópumsóknir. Úthlutað var alls 162 mánaðarlaunum til 12 sviðslistahópa. Það gerir í heildina 47 milljónir eða tæpar 4 milljónir á hóp.  10 einstaklingar fá samtals 28 mánaðarlaun úthlutuð, eða að meðaltali rúm 800 þúsund kr. hver.

Heiðar Sumarliðason (Geirfugl) fékk 12 mánuði úthlutaða.

Leikhópurinn „Soðið svið“ fékk 18 mánuði.

Leikhóparnir Lab Loki og Vesturport fengu 20 mánuði hvor.

Leikhópurinn Shalala fékk 21 mánuð.

Leikhópurinn La Familia fékk 25 mánuði.

29 tónlistarflytjendur fengu úthlutað

Tónlistarflytjendur fá 180 mánuði í heild úthlutaða. 79 sóttu um, en 29  fengu úthlutuð úr sjóðnum, að meðaltali 1,8 milljón hver.

Árni Heimir Ingólfsson og Ellen Rósalind Kristjánsdóttir fengu 9 mánaðarlaun hvort. Davíð Þór Jónsson, Guðrún Óskarsdóttir, Nína Margrét Grímsdóttir og Sif Margrét Tulinius fengu 12 mánaðarlaun hvert.

Launasjóði tónskálda bárust 72 umsóknir. Sjóðurinn hafði í heildina 190 mánuði til úthlutunar. 26 einstaklingar fengu úthlutað úr sjóðnum, að meðaltali 2,1 milljón hver.

Bára Grímsdóttir, Hildur Ingveldardóttir Guðnadóttir, Jóhann Guðmundur Jóhannsson, Jóhann Gunnar Jóhannsson, Tómas Ragnar Einarsson, Valgeir Sigurðsson og Þórður Magnússon fengu öll 9 mánuði úthlutaða til launa.

Atli Ingólfsson, Daníel Bjarnason, Lárus Halldór Grímsson, Snorri Sigfús Birgisson og Sveinn Lúðvík Björnsson fengu 12 mánaðarlaun hver.

Sex fengu sérstök framlög

Sérstök framlög listamannalauna fengu 6 einstaklingar. Hver fær ein mánaðarlaun.

Benedikt Gunnarsson, Bragi Ásgeirsson, Eiríkur Smith, Gísli J. Ástþórsson, Jón Ásgeirsson, Ólöf Pálsdóttir og Sigurður Hallmarsson fengu öll sérstök framlög listamannalauna.

Stjórn listamannalauna skipa: Birna Þórðardóttir, formaður, Margrét Bóasdóttir, varaformaður og Kristján Steingrímur Jónsson.

Í meðfylgjandi skjali er hægt að sjá alla sem fengu í dag úthlutað listamannalaunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert