Heilsugæslum verði fækkað

Neskaupstaður.
Neskaupstaður. www.mats.is

Í skýrslu sem Expectus ehf. gerði fyrir velferðarráðuneytið að beiðni Heilbrigðisstofnunar Austurlands, (HSA), er m.a. lagt til að miðstöð bráðalækninga á Austurlandi verði byggð upp á Egilsstöðum. Þar sé alþjóðaflugvöllur. „Bæði í skoðun 2008 og aftur nú kemur fram að staðsetning aðalsjúkradeildar í Neskaupstað veldur stundum óvissu um hvort flytja eigi slasaðan eða bráðveikan einstakling þangað eða fara með hann beint á Egilsstaði og í framhaldi í sjúkraflug,“ segir í skýrslunni en mikil umfjöllun er um málið í nýjasta tölublaði Austurgluggans sem kemur út á morgun. Haft er eftir forstjóra HSA í blaðinu að á meðan enginn hafi tekið efnislega afstöðu til skýrslunnar sé hún eingöngu einskonar hugmyndarit.

Í skýrslunni er gerð tillaga um að í Neskaupstað verði aukin áhersla lögð á að sinna endurhæfingu, lyf- og öldrunarlækningum og lagt til að fæðingarþjónustunni í Neskaupstað verði hætt og hún flutt yfir á Egilsstaði.

Skýrslan er enn óopinber og hefur ekki verið rædd í stjórn HSA.

Fram kemur í skýrslunni að sögn Austurgluggans að í kjölfar mikilla samgöngubóta hafi skapast tækifæri til að fækka heilsugæslustöðvum a.m.k. um suðurfirðina. Í Fjarðabyggð er lagt til að starfrækt verði miðlæg heilsugæsla á Reyðarfirði en stöðvum á Stöðvarfirði Fáskrúðsfirði og Eskifirði verði lokað. Jafnframt er lagt til í skýrslunni að lokað verði á Borgarfirði, Breiðdalsvík og Bakkafirði. Í staðinn verður heilsugæslan á Reyðarfirði stækkuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert