Greiddi barni fyrir vændi

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að greiða 14 ára pilti fyrir kynferðismök. Maðurinn játaði sök.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haft kynferðismök við piltinn án þess að gæta nægjanlegrar varúðar um aldur hans, en einnig fyrir að greiða barni fyrir vændi  með reiðufé, en maðurinn greiddi piltinum 30 þúsund krónur.

Brot mannsins voru annars vegar talin varða við 204. gr., sbr. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Það þýðir í raun að maðurinn var dæmdur fyrir að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, en brotið hafi verið framið í gáleysi um aldur þess barnsins, og skal því beita vægari refsingu. 

Hins vegar var brot mannsins talið varða við 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir að hver sem ginni, hvetji eða aðstoði ungmenni, yngra en 18 ára, til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti skuli sæta fangelsi allt að 2 árum.

Vel gerður samkynhneigður maður

Meðal gagna málsins var læknisvottorð geðlæknis, en niðurstaða hans var að maðurinn væri vel gefinn og vel gerður samkynhneigður maður sem um árabil hefði lifað í felum með kynhneigð sína. Hann hefði freistast til að leita eftir samskiptum við aðra karlmenn í netheimum og hefði þetta orðið til þess að hann hefði verið afhjúpaður með miklum afleiðingum fyrir hann og fjölskyldu hans og hefði hann misst starf sitt.

Maðurinn hefði tekið mjög vel á þessum málum síðan, hann hefði farið í áfengismeðferð og verið edrú eftir það. Hann hefði einnig stundað vel SLAA-fundi, svo og AA-fundi og mætt í viðtöl hjá lækninum. Að mati læknisins leikur enginn grunur á að um einhvers konar pedofiliu sé að ræða hjá manninum eða einhverjar langanir til afbrigðilegs kynlífs með öðru hvoru kyninu.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að skilorðsbinda mætti refsinguna, meðal annars vegna þeirra afleiðinga sem málið hefði haft fyrir manninn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert