Hinsegin vetrarhátíð um helgina

Það er Pink Iceland sem stendur að Hinsegin vetrarhátíð í …
Það er Pink Iceland sem stendur að Hinsegin vetrarhátíð í samstarfi við aðra aðila, m.a. erlenda hinsegin viðburðarskrifstofu. mbl.is/Kristinn

Hinsegin vetrarhátíð fer í fyrsta skipti fram um næstu helgi í Reykjavík. Hátíðin er markaðssett erlendis undir heitinu „Rainbow Reykjavik“og mun því koma talsverður hópur erlendis frá til að taka þátt í hátíðinni.

„Já, þetta byrjar núna á fimmtudaginn,“ segir Eva María Þórarinsdóttir Lange, framkvæmdastjóri hátíðarinnar aðspurð um hátíðina. Hátíðin mun standa frá 16. - 19. febrúar.

„Þetta er í rauninni kannski okkar svar við því að febrúar er frekar rólegur mánuður í ferðaþjónustu á Íslandi og við náttúrulega erum að reka ferðaþjónustufyrirtæki og maður er alltaf að leita leiða til að liðka upp á ferðaþjónustuna á þessum rólegu mánuðum. Þannig að við fórum í samstarf við Höfuðborgarstofu, Icelandair og fleiri fyrirtæki um það að nýta þetta líka sem einhverskonar uppákomu og þess vegna bjuggum við til þessa dagskrá, sem er sambland af hinsegin menningu, list og íslenskri náttúru, sem er aðal málið,“segir Birna aðspurð um það hvernig hátíðin er til komin.

Hugmyndin unnin í samstarfi við erlenda aðila

Eva María rekur fyrirtækið Pink Iceland í ásamt kærustu sinni, Birnu Hrönn Björnsdóttur. „Þessi hugmynd kemur í rauninni bæði frá okkur hjá Pink Iceland og frá erlendum aðilum sem hafa verið að vinna mikið með Icalandair og er í rauninni almannatengsla fyrirtæki sem sér um hinsegin uppákomur víðsvegar um heiminn,“ bætir Eva María við.

„Við höfum fengið mjög góða umfjöllun erlendis og við lítum kannski svolítið á þessa hátíð sem ákveðna kynningu. Þetta er náttúrulega í fyrsta skipti sem þetta er haldið og við tökum á móti 19 hinsegin fjölmiðlum til landsins,“ segir Eva María. Hún segir um að ræða sjónvarpsstöðvar, útvarpsstöðvar, bloggara og fleiri blaðamenn sem allir sérhæfa sig í hinsegin miðlun. Segir hún þessa fjölmiðla hafa fjallað um hátíðina í aðdraganda hennar, en einnig hafa samstarfsaðilar hátíðarinnar staðið að kynningu erlendis.

Hátíð fyrir alla

Má búast við að hátíðin skapi talsverðar gjaldeyristekjur fyrir landið, en Eva María á von á góðri þátttöku og þá ekki síst meðal Íslendinga. „Þetta er fyrir alla og við erum með á föstudaginn tónleika í Hörpunni með Lay Low og Páli Óskari og það eru náttúrulega meirihluti Íslendingar sem munu fylla þá tónleika,“ segir Eva María um markhóp hátíðarinnar.

Á heimasíðu Hinsegin vetrarhátíðar er mikil áhersla lögð á íslenska náttúru og m.a. norðurljósin. Dagskráin er ekki af verri endanum en hún hefst, sem fyrr segir á fimmtudaginn og samanstendur af ýmsum viðburðum. Farið verður í Bláa lónið, hinsegin sögugöngu um Reykjavík, haldnir tónleikar í Hörpunni með Páli Óskari og Lay Low, ferð um Gullna hringinn auk móttöku borgarstjórans í Reykjavík í ráðhúsinu, svo eitthvað sé nefnt. Þá mun hinsegin næturlífið án efa verða litríkt um helgina og Trúnó og Barbara að Laugavegi 22 verða annað heimili gesta a meðan dvöl stendur.

„Reykjavík er að setja sér þá stefnu að vera viðburðarborg og okkur fannst þetta smellpassa þarna í, sérstaklega þar sem febrúar er almennt fremur rólegur tími í ferðaþjónustu,“ segir Eva María aðspurð um tímavalið og segir að auki að hún vænti þess að hátíðin geti orðið árleg.

Vinsælt hjá hinsegin fólki að gifta sig hér á landi

Á heimasíðu Hinsegin vetrarhátíðar eru leiðbeiningar um hvernig hinsegin fólk geti gift sig á Íslandi, en Ísland er eitt fárra landa sem hefur eina hjúskaparlöggjöf sem ekki mismunar fólki eftir kynhneigð.

„Það sem kom okkur kannski helst á óvart þegar við vorum að byrja að við höfum fengið talsverðar fyrirspurnir um giftingar og brúðkaupsferðir, veislur og allt sem fylgir,“ segir Eva María og bætir við „Þetta er orðið næstum því hliðarbúgrein hjá okkur að vera svona „weddings planner“ eins og í Bandaríkjunum. Við munum taka á móti nokkrum hópum í vor, sumar og haust.“

Aðspurð um hvort hún viti af einhverju pari sem ætli að gifta sig um helgina segist hún ekki vita til þess, en segir að það sé þó aldrei að vita og gerist gjarnan á Gay Pride að annar aðilinn fari óvænt niður á hnén og parið gifti sig fyrir heimferð þannig að það sé ekki hægt að útiloka neitt.

Eva María Þórarinsdóttir er annar eigandi Pink Iceland, sem stendur …
Eva María Þórarinsdóttir er annar eigandi Pink Iceland, sem stendur ásamt fleirum að Hinsegin vetrarhátíð í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson
Borgarstjórinn í Reykjavík mun halda boð í ráðhúsinu í tilefni …
Borgarstjórinn í Reykjavík mun halda boð í ráðhúsinu í tilefni Hinsegin vetrarhátíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Mikið fjör er jafnan í Reykjavík á árlegri hátíð hinsegin …
Mikið fjör er jafnan í Reykjavík á árlegri hátíð hinsegin fólks. Nú er að verða að verukeika árleg Hinsegin vetrarhátíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert