Óviðeigandi afskipti Evrópuþingsins

Árni Þór í ræðustóli og Össur Skarphéðinsson fyrir aftan hann.
Árni Þór í ræðustóli og Össur Skarphéðinsson fyrir aftan hann. Eggert Jóhannesson

Ályktun utanríkisnefndar Evrópuþingsins var til umræðu á Alþingi í dag, annan daginn í röð. Þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks voru sammála um að óviðeigandi væri fyrir nefndina að skipta sér af innanríkismálum Íslands.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf umræðuna og sagði ljóst af texta ályktunarinnar að Evrópusambandið teldi sig í þeirri stöðu að geta talað við Íslendinga í „tilskipunarstíl“, þeir væru nú umsóknarþjóð sem tími er til kominn að kenna lexíu. Einar sagði að ályktunin væri töluverð inngrip í innanríkispólitík, enda væri vikið að skipan ríkisstjórnarinnar, og Íslendingum ráðlagt varðandi endurskipulagningu orkufyrirtækja, flutningsstarfsemi og sett út á bann við beinni erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi.

Hann sagði ályktunina ákaflega sérkennilega, og við lesturinn kæmi upp sú tilfinning að þarna væri kennari að tala við nemanda. „Verið er að siða okkur og segja hvernig við eigum að haga okkur.“ Hann spurði því næst um upplifun Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar og þingmanns Vinstri grænna.

Árni tók þó fram að þarna væri um að ræða kjörna stjórnmálamenn og þeir yrðu að hafa leyfi til að setja fram sínar skoðanir á ýmsum hlutum. Einnig kæmi fram í ályktuninni hrós um það hvernig Íslendingar hefðu staðið sig frá hruni. En Árni Þór sagðist einnig taka undir með Einari. „Mér finnst að sumu leyti að í þessum texta sé um að ræða afskipti eða íblöndun í íslensk stjórnmál, sem mér finnst óviðeigandi.“

Þá benti Árni á að starfandi væri sameiginleg þingmannanefnd milli utanríkismálanefndar Alþingis  og utanríkisnefndar Evrópuráðsins, sem fundaði tvisvar á ári „og ég sem formaður þeirrar nefndar mun taka þetta upp á þeim vettvangi,“ sagði Árni.

Gegn hagsmunum í sjávarútvegi

Fleiri blönduðu sér í umræðuna og þó að Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, játaði að hafa ekki lesið ályktunina sagði hann orð Árna Þórs ábyggilega rétt um að þarna væru óviðeigandi afskipti af tilteknum málum hér á landi. Eitt þótti Merði þó ekki óviðeigandi, en það er ábending nefndarinnar um sjávarútveginn. Hann sagði þá staðreynd að hér ríkti bann við beinum erlendum fjárfestingum í sjávarútvegi fara á svig við samstarf Íslands við aðrar Evrópuþjóðir. Þá fari það þvert á það sem Íslendingar boði sjálfir, en þeir bjóði útlendingum að koma hingað og fjárfesta.

Hann sagðist ekkert sjá að því að þetta bann væri gagnrýnt og velti fyrir sér hver ástæðan væri eiginlega fyrir banninu. „Ég sé ekki betur en þetta sé gegn hagsmunum í sjávarútveginum og almennum viðskiptahagsmunum á Íslandi.“ Auk þess sagði hann þetta gjörsamlega úr takti við fjárfestingar Íslendinga í sjávarútvegi erlendis.

Einnig kom upp í ræðustól Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sem sagði inngrip utanríkisnefndar Evrópuþingsins mjög alvarlegt. Hún sagði það sama eiga við um styrki sem bærust frá Evrópusambandinu, s.s. til manntalningar og Evrópustofu, að þar væri ekki um annað að ræða en inngrip í innanríkismál.

Einar Kr. Guðfinnsson.
Einar Kr. Guðfinnsson.
Mörður Árnason.
Mörður Árnason. mbl.is
Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert