Haldi áfram að safna kennitölum

Seðlabankinn við Arnarhól.
Seðlabankinn við Arnarhól. mbl.is/Ernir

Seðlabanki Íslands hefur beint þeim tilmælum til viðskiptabanka og sparisjóða að þeir haldi áfram að krefjast kennitölu þegar einstaklingar selja erlendan gjaldeyri fyrir íslenskar krónur, jafnvel þótt upphæðin sé lægri en 1.000 evrur.

Í nýlegum úrskurði Persónuverndar var komist að þeirri niðurstöðu að Arion banka væri óheimilt að krefjast kennitölu vegna gjaldeyrisviðskipta undir 1.000 evrum og í kjölfarið hætti bankinn því. Seðlabankinn vill að kennitölusöfnuninni verði haldið áfram.

Seðlabankinn byggir þessi tilmæli sín, sem hann sendi á föstudaginn, á lögum um gjaldeyrismál frá 1992 og á reglugerð frá 1995. Í lögunum sé kveðið á um að Seðlabankinn setji reglur um upplýsingaskyldu vegna gjaldeyrisviðskipta. Þær reglur komi fram í reglugerðinni frá 1995 en hún kveði m.a. á um að allir þeir sem eiga milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skuli skrá niður kennitölu þeirra sem viðskiptin eiga, skv. handbók Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir Seðlabankinn á, að í úrskurði Persónuverndar sé ekki fjallað um þessa heimild í lögum um gjaldeyrismál, enda hafi Arion banki ekki vísað til hennar í málatilbúnaði sínum, heldur einungis til heimildar í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og varnir gegn hryðjuverkum. Persónuvernd hafi því ekki tekið afstöðu til þess hvort lög um gjaldeyrismál feli í sér heimild til að krefjast kennitölu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert