Forstjóra FME sagt upp störfum

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Gunnari Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, var í dag sagt upp störfum. Morgunblaðið hefur þetta eftir áreiðanlegum heimildum. Gunnar hefur andmælarétt til mánudags en hann fékk uppsagnarbréf sent til sín í dag.

Samkvæmt heimildum blaðsins er ástæða uppsagnarinnar umfjöllun Kastljóss um hans mál.

„Við settum þetta mál í ákveðið ferli í nóvember eftir fréttaumfjöllun þar sem því var haldið fram að það hefðu komið fram nýjar upplýsingar um hæfi Gunnars. Ferlið fól í sér þrennt. Í fyrsta lagi fengum við Andra Árnason til þess að athuga hvort eitthvað væri hæft í því að nýjar upplýsingar hefðu komið fram og að beiðni Andra var jafnframt líka kallað eftir upplýsingum frá regluverði Landsbankans og víðar,“ segir Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, í samtali við Morgunblaðið.

„Í annan stað þá myndum við fela tveimur nýjum óháðum aðilum að fara yfir og rýna álitsgerðir Andra. Þetta voru Ástráður Haraldsson lögmaður og Ásbjörn Björnsson endurskoðandi. Í þriðja lagi að í framhaldi af þessu myndi stjórnin fjalla um málið og náttúrlega taka sínar ákvarðanir.“

Búist er við því að stjórn Fjármálaeftirlitsins komi með tilkynningu vegna þessa máls eftir helgina, sennilega á þriðjudag.

Gunnar hefur gegnt stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins í tæp þrjú ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert