Dómurinn hefur ekkert fordæmisgildi án kvittunar

mbl.is/Hjörtur

Fram kemur í samantekt álitsgerðar fyrir Samtök fjármálafyrirtækja um nýgenginn dóm Hæstaréttar um gengisbundin lán að dómurinn fjalli eingöngu um gildi fullnaðarkvittana og að form þeirra skipti þar engu máli. Dómurinn hafi hins vegar ekkert fordæmisgildi varðandi tilfelli þar sem lántaki hafi ekki yfir að ráða fullnaðarkvittun eða ígildi hennar.

Ennfremur segir að fjármálafyrirtæki geti ekki krafist mismunar á óverðtryggðum Seðlabankavöxtum og samningsvöxtum fyrir tímabil þar sem fullnaðarkvittun eða ígildi hennar liggi fyrir eða séu aðstæður sambærilegar við það sem lýst sé í dómnum.

Þá segir í álitsgerðinni, sem unnin var af lögmannsstofunni Lex, að ólögmæt gengistryggð lán eigi að bera óverðtryggða Seðlabankavexti frá stofndegi enda standi fullnaðarkvittanir ekki í vegi þess. Liggi ekki fyrir fullnaðarkvittun megi krefjast óverðtryggðra Seðlabankavaxta afturvirkt. Séu lán í vanskilum hvað varðar vaxtagreiðslur liggi ekki fyrir fullnaðarkvittun vegna þeirra gjalddaga sem séu í vanskilum og við því megi vegna þeirra gjalddaga krefjast Seðlabankavaxta afturvirkt.

„Dómurinn fjallar ekki um lánssamninga lögaðila en við teljum að atvik kunni að vera sambærileg þegar um smærri lögaðila er að ræða. Stærð og staða lögaðila við samningsgerð hefur þannig að okkar mati þýðingu,“ segir í samantekt álitsgerðarinnar. Þá segir einnig að dómurinn geti haft fordæmisgildi fyrir samningsgerð vegna allra tegunda lánasamninga.

Þá segir ennfremur að höfundar álitsgerðarinnar telji að lántakendur sem greiddu samningsvexti af gengistryggðum höfuðstól, og þannig greitt of háan höfuðstól, eigi almennt séð ekki endurkröfurétt vegna þess. Það byggi á því að Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar ólögmætir gengistryggðir samningar skuli bera óverðtryggða Seðlabankavexti frá stofndegi. Í því ljósi hafi ofgreiðsla vaxta almennt ekki átt sér stað.

„Endurgreiðsla kemur því að okkar mati einungis til greina þegar raunveruleg ofgreiðsla hefur átt sér stað, þ.e. að samningsvextir hafa á einstökum vaxtatímabilum verið hærri en óverðtryggðir Seðlabankavextir,“ segir ennfremur í samantektinni.

Álitsgerð Lex í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert