Venjulegar konur með öðruvísi vandamál

Á síðasta ári gistu 64 heimilislausar konur alls 1.551 nótt í Konukoti. Árið 2005 voru gistinæturnar 977. Starfsemin hefur því vaxið frá stofnun en hún byggist m.a. á starfi sjálfboðaliða sem vilja láta gott af sér leiða. Í janúar tóku sjálfboðaliðarnir það til dæmis að sér að halda húsinu opnu á sunnudögum, til að bregðast við aukinni þörf í vetrarhörkunum.

Rúm sjö ár eru nú liðin síðan Konukot, næturathvarf fyrir heimilislausar konur, var opnað sem tilraunaverkefni og hefur það margfalt sannað gildi sitt á þessum tíma. Konurnar sem sækja athvarfið eru á aldrinum 18-66 ára. Margar eru í neyslu, aðrar ekki, en allar eiga þær það sameiginlegt að eiga hvergi höfði sínu að halla og þurfa stað til að sofa á. Kristín Helga Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Konukots, segir að svipað sé með neyðarathvörf eins og slökkviliðið: Helst viljum við að sem fæstir þurfi að nota sér þau, en úrræðið verður að vera til staðar.

Hópurinn tvöfaldaðist á 5 árum

Þegar Reykjavíkurdeild Rauða krossins kom Konukoti á fót árið 2004 má segja að heimilislausar konur hafi verið ósýnilegur hópur í Reykjavík. „Áður en þetta athvarf varð til héldu margir að það væri ekkert svona vandamál í bænum. En markmiðið er að gera vandann sýnilegan. Raunveruleikinn kemur í ljós þegar kerfið er tilbúið að horfast í augu við hann og taka á honum," segir Kristín Helga. Fljótlega kom enda í ljós að þörfin er sannarlega til staðar og frá árinu 2006 hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar stutt reksturinn með samstarssamningi við Reykjavíkurdeildina.

Fyrstu tvö árin fengu um 40 konur gistingu í Konukoti, en fimm árum síðar hafði hópurinn nánast tvöfaldast því 2010 leituðu 78 konur athvarfs þar og gistinætur voru alls 1.784. Með tímanum hefur þekking og skilningur á þörfum hópsins aukist og segja má að starfsemin hafi undið upp á sig, því haustið 2010 ákvað velferðarsvið að ástæða væri til að opna nýtt stuðningsheimili, Mýrina, fyrir þær konur sem lengst höfðu verið heimilislausar og dvalið mest í Konukoti. Í kjölfarið þessa nýja úrræðis fækkaði því lítillega í hópnum sæm sækir Konukot svo í fyrra fengu alls 69 konur þar gistingu, í 1.551 nótt.

Konunum hjálpað að þreyja þorrann

Að jafnaði leituðu um 15-20 konur til Konukots í hverjum mánuði árið 2011. Gistinæturnar voru flestar í júní, alls 178 og hefur það verið þannig flest sumur enda hefur það sýnt sig að fleiri eru á ferðinni á þessum tíma ársins á Íslandi. Á veturna verður hinsvegar staða þeirra sem hvergi eiga skjól enn erfiðari en ella, ekki síst þegar tíðin er jafnhörð og raunin varð nú í vetur. Í janúar síðastliðnum var gripið til þess ráðs að hafa opið daglangt á sunnudögum í Konukoti, en yfirleitt er það aðeins opið frá klukkan 17 síðdegis til kl. 11.30 daginn eftir.

„Í fyrra og hittiðfyrra var nánast eins og vor í janúar, en nú hefur þetta verið þyngra og harðindakaflinn var ansi langur. Þetta var hugsað til að þreyja þorrann og við spurðum sjálfboðaliða hvort þeir væru tilbúnir að bæta sunnudögum við. Það náðist og það munaði um það fyrir konurnar yfir harðasta tímann. Það er alveg frábært að fólkið í þessum sjálfboðaliðahóp sé tilbúið til þess," segir Kristín Helga.

Ómetanlegir sjálfboðaliðar

Um 30-40 sjálfboðaliðar vinna að jafnaði í Konukoti. „Það eru konur alls staðar að úr þjóðfélaginu sem vilja vinna þarna og eiga það sammerkt að vilja láta gott af sér leiða og gefa af sér,“ segir Kristín Helga. Ómetanlegt sé að hafa svo góðan sjálfboðaliðahóp og að sama skapi sé líka dýrmætt fyrir samfélagið að þar myndist þekking og skilningur á málefninu. „Grunnhugsunin er að við tökum fólki eins og það er. Það er mikilvægt fyrir þann sem kemur þarna inn að upplifa virðingu í framkomu og traust skjól. Við reynum ekki að skikka fólk í eitt eða neitt, þetta á að vera hlutlaust svæði.“

Í meðfylgjandi myndskeiði er rætt við Hlín Sæþórsdóttur, sjálfboðaliða í Konukoti. Hún segir að þótt starfið geti vissulega verið erfitt eigi hún oftast yndislegar stundir í Konukoti, þar sem góður andi sé í húsinu. Þangað sæki ósköp venjulegar konur, bara með öðru vísi vandamál. 

Vilt þú gerast sjálfboðaliði í Reykjavík á vegum Rauðakrossins?
Þú getur haft samband við sjálfboðamiðlun Rauða krossins í síma 545-0408, sent tölvupóst á sjalfbodamdlun@redcross.is eða skráð þig hér á vef Rauða krossins.

Hlín Sæþórsdóttir, sjálfboðaliði í Konukoti.
Hlín Sæþórsdóttir, sjálfboðaliði í Konukoti.
Fjöldi og aldur kvenna í Konukoti.
Fjöldi og aldur kvenna í Konukoti. Mbl.is/Elín Esther
Fjöldi gistinátta í Konukoti.
Fjöldi gistinátta í Konukoti. Mbl.is/Elín Esther
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert