67% myndu hafna ESB-aðild

Reuters

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent Gallup vann fyrir Samtök iðnaðarins eru 56,2% andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 26,3% henni hlynnt. 17,5% taka hins vegar ekki afstöðu í könnuninni.

Einnig var spurt hvernig fólk myndi greiða atkvæði ef þjóðaratkvæði færi fram um inngöngu í ESB nú og sögðust 67,4% hafna aðild en 32,6% samþykkja hana.

Samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunarinnar hefur andstaða við inngöngu í ESB aukist umtalsvert frá hliðstæðri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins í febrúar 2011.

Að síðustu var spurt að því hvort stjórnvöld ættu að draga umsóknina um inngöngu í ESB til baka og sögðust 43,6% hlynnt því en 42,6% andvíg. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Samtök iðnaðarins kanna afstöðu til þeirrar spurningar.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 12. til 20. janúar sl., úrtakið var 1350 manns og svarhlutfallið 64,2% en greint var frá niðurstöðum könnunarinnar á heimasíðu Samtaka iðnaðarins 22. febrúar síðastliðinn.

Heimasíða Samtaka iðnaðarins

Niðurstöður skoðanakönnunarinnar (pdf)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert