Uppsagnarferlinu sjálfhætt

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

„Ég á ekki von á öðru en að þessu uppsagnarferli sé nú sjálfhætt, það er alveg ljóst að þetta setur málið í allt annan farveg,“ segir Skúli Bjarnason, lögmaður Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, um þann úrskurð fjármálaráðherra, Oddnýjar G. Harðardóttur, að Gunnar hafi réttarstöðu embættismanns.

Gunnar hafði krafist þess að fjármálaráðherra úrskurðaði um réttarstöðu hans þannig að enginn vafi léki á því hvort hann félli undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, vegna fyrirhugaðrar uppsagnar hans.

Skúli segir það sína persónulegu skoðun að stjórninni sé varla stætt á að sitja lengur og segist ekki sjá hvernig hægt sé að halda uppsögn Gunnars til streitu.

„Þá þyrftu þeir að fara í eitthvert áminningaferli og það þyrfti að víkja honum til hliðar í einhvern tíma, kannski hálft ár, á meðan fagleg rannsóknarnefnd á vegum fjármálaráðherra færi yfir það hvort lögmætar ástæður lægju að baki uppsögn. En það er auðvitað alls ekki þannig. Maðurinn hefur ekkert brotið af sér,“ segir Skúli.

Hann segir mikilvægt að hafa í huga að reglur um embættismenn hafi ekki verið settar með hagsmuni viðkomandi einstaklinga að leiðarljósi, heldur til þess að tryggja festu í stjórnkerfinu og til að koma í veg fyrir að menn væru settir út í kuldann eftir geðþótta.

„Gunnar hefur rækt starf sitt af trúmennsku og mun gera það áfram. Það er ekkert annað inni í myndinni. Hann hefur bara áhuga á því að fá að sinna sínu starfi í friði og það er löngu tímabært að þessum ofsóknum ljúki,“ segir Skúli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert