Fjallað um áhuga á upptöku Kanadadollars

Reuters

Kanadískir fjölmiðlar hafa í dag fjallað í dag um þá hugmynd að Ísland taki upp kanadíska dollarann sem gjaldmiðil sinn. Fréttavefur The Globe and Mail segir að enginn hafi haft áhuga á að taka upp kanadíska gjaldmiðilinn í 150 ár. En núna sýni Íslendingar því áhuga í kjölfar efnahagserfiðleikanna hér á landi og kanadísk stjórnvöld hafa í fyrsta sinn sagt að þau séu reiðubúin að ræða þann möguleika.

Fram kemur að kanadíski sendiherrann á Íslandi, Alan Bones, hafi tekið jákvætt í hugmyndina en að hann muni einnig vara Íslendinga við því að veruleg áhætta fylgi því að taka kanadíska dollarann upp einhliða. Þar á meðal algert framsal peningamálastjórnar Íslands þar sem kanadíski seðlabankinn taki aðeins ákvarðanir með hagsmuni Kanadamanna og kanadísks efnahagslífs í huga.

Þá segir að sendiherrann muni ennfremur vara við því að ef Íslendingar leggi niður íslensku krónuna fyrir kanadíska dollarann þýði það að Ísland hafi eftirleiðis fá tæki til þess að stjórna efnahagslífi sínu, nema þá helst aukið atvinnuleysi, til þess að takast á við efnahagsáföll og gengissveiflur Kanadadollars.

Fram kemur á fréttavefnum The Toronto Star að hugmyndir Íslendinga um að taka upp kanadíska dollarann kunni loksins að vera að bera árangur en þeir geti ekki beðið með að losa sig við krónuna fyrir stöðugri gjaldmiðil. Efasemdir séu komnar upp um fyrri hugmyndir um að taka upp evru með aðild að evrusvæðinu vegna efnahagsvandræðanna í Grikklandi.

Þá segir þar að engin svör fáist frá kanadíska sendiherranum á Íslandi um málið. Hann vísi á ráðuneyti alþjóðaviðskipta í Kanada en þar fáist heldur engin svör.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert