„Fólk er harmi slegið“

Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. Morgunblaðið/Alfons

„Fólk er harmi slegið, enda er þetta mikið áfall fyrir ekki stærra bæjarfélag,“ segir Ragnheiður Karítas Pétursdóttir, sóknarprestur í Ólafsvík, um ástandið í bæjarfélaginu eftir brunann í nótt, en í honum lést rétt tæplega fertugur karlmaður. Bænastund verður haldin á vinnustað mannsins í dag. 

Slökkvilið Snæfellsbæjar fékk tilkynningu um eld í íbúðarhúsi um kl. 2.20. Reykkafarar fundu manninn meðvitundarlausan og lífgunartilraunir báru ekki árangur. Hann var úrskurðaður látinn á heilsugæslustöðinni í bænum.

Eins og gefur að skilja í jafn litlu bæjarfélagi þá þurfa slökkviliðs-, sjúkraflutninga- og lögreglumenn ekki oft að glíma við mál sem þetta, auk þess sem samfélagið er afar náið og ef fólk tengist ekki fjölskylduböndum, tengist það oftar en ekki vinaböndum. Af þessum sökum mun Ragnheiður Karítas ásamt lækni halda fund með þeim sem að málinu komu, og veita áfallahjálp.

Þá segir hún að hennar aðkoma sé hefðbundin, að styðja aðstandendur, vini og vandamenn.

Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert