Björn ætlar að áfrýja

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Að sjálfsögðu mun ég áfrýja, annað kemur ekki til greina. Hvers vegna er ég t d. dæmdur til að greiða fjölmiðlakóngi 200 þús. kr. til að birta dóminn?“ Skrifar Björn Bjarnason á vefsíðu sína en Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Björn til að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni 200 þúsund kr. í miskabætur, fyrir ummæli í bók Björns, Rosabaugur yfir Íslandi. Birni er einnig gert að greiða 200 þúsund kr. til að birta forsendur dóms auk þess sem tiltekin ummæli í bók Björns voru ómerkt. Einnig þarf Björn að greiða Jóni fimm hundruð þúsund í málskostnað.

Björn skrifar á vefsíðu sína: „Dómarinn segir: „Stefndi getur ekki byggt á því sjónarmiði að hann hafi með bókinni verið að svara árásum á sig.“ Hvar hef ég sagt þetta? Við þessa röngu fullyrðingu bætir síðan dómarinn: „Rangar fullyrðingar verða ekki réttlættar með því.“ Verða þær til að komast að réttri dómsniðurstöðu?

Ég hef leiðrétt það sem var rangt í bókinni og birt afsökun vegna þess. Ég varð við ósk  lögmanns Jóns Ásgeirs um leiðréttingu og afsökun. Heyrði ekkert frekar frá honum fyrr en ég fékk stefnu og nú er mér gert að greiða Jóni Ásgeiri 200 þús. kr. í miskabætur fyrir „ólögmæta meingerð gegn æru“ hans þrátt fyrir hina opinberu leiðréttingu.

Það er óhjákvæmilegt að fá niðurstöðu Hæstaréttar um það hvort héraðsdómur sé réttur. Reynist svo hafa dómstólar mótað nýja og þrönga málfrelsisreglu sem felst í því að menn eiga ekki lengur leiðréttingu orða sinna heldur geta setið uppi með mörg hundruð þúsundir króna í kostnað vegna ritvillu,“ skrifar Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert