Þrýstingur hefði valdið usla

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis.
Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis,  átti fund með samráðshópi ríkisstjórnarinnar um fjármálastöðugleika, en segist ekki minnast þess að hópurinn hafi óskað eftir upplýsingum frá honum um stöðu Glitnis. 

Þetta kom fram við vitnaleiðslur við Landsdóm í morgun. 

Þar sagði Lárus að engar tillögur hefðu komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar um að Glitnir minnkaði efnahagsreikning sinn. „Ég man ekki eftir því að það hafi verið konkret tillögur um það, en við áttum gott  samstarf við stjórnvöld. Ég tel að við höfum átt opin samskipti við stjórnvöld og fjármálaeftirlit,“ sagði Lárus.

Hann sagði að Glitnir hefði farið í umfangsmiklar aðgerðir í því skyni að minnka efnahagsreikning bankans. Sett hefði verið upp aðgerðaáætlun í byrjun ársins 2008 og samráð hefði verið átt við stjórnvöld varðandi það. Í kjölfarið hefði fylgt sala á meginhluta starfsemi Glitnis í Noregi og einnig hefði starfsstöð verið lokað í Kaupmannahöfn.

Spurður að því hvernig hann mæti viðleitni stjórnvalda til að fást við yfirvofandi bankakrísu sagðist Lárus hafa haldið stjórnvöldum upplýstum. 

Hann sagðist ekki geta haldið því fram að stjórnvöld hefðu átt að þrýsta á bankana um að draga saman seglin. Það hefði ekki hjálpað, þvert á móti hefði það skapað „panikástand“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert