Lengi haft áhyggjur af bankakerfinu

Þjóðmenningarhúsið þar sem Landsdómur er haldinn.
Þjóðmenningarhúsið þar sem Landsdómur er haldinn. mbl.is/Hjörtur

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist fyrir Landsdómi í dag ekki hafa átt von á því frekar en aðrir að allir íslensku bankarnir myndu hrynja í október 2008. Hann hafi þó haft áhyggjur af því að tveir af þremur stóru bankanna kynnu að standa illa. Þá kom fram í máli hans að hann hefði lengi haft áhyggjur af stöðu bankakerfisins og efnahagskerfis Íslands sem slíks.

„Þannig að ég var sannarlega þeirrar skoðunar að aðsteðjandi væru miklar hættur,“ sagði Steingrímur og sagðist hafa varað við því við ýmis tilefni árin áður en bankahrunið átti sér stað. Enda hefðu vísbendingar komið úr ýmsum áttum sem taka hefði átt alvarlega.

Aðspurður af Sigríði J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, í hverju þær hættur hafi falist nefndi Steingrímur fyrst og fremst jafnvægisleysi í efnahagskerfinu og vaxandi skuldasöfnun heimila og fyrirtækja. Sagðist hann telja óskiljanlegt að meðvitund manna hafi ekki verið meiri gagnvart hættunni.

Steingrímur sagði menn þó vissulega hafa haft þær málsbætur að bankarnir hefðu fengið heilbrigðisvottorð frá ýmsum aðilum meðal annars erlendis frá og frá Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Þá sagði hann aðspurður að stjórnarandstaðan hafi lítið verið upplýst.

Spurður hvort það hafi verið einhver vinna í gangi svo hann vissi til við að draga úr umfangi bankakerfisins sagðist hann ekki hafa vitað til þess að nein sérstök vinna hafi verið í gangi í þeim efnum. „En það má líka segja að það sem er ekki reynt það kemur ekki í ljóst hvort það hafi verið hægt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert