12.600 án vinnu og í atvinnuleit

mbl.is/Ómar

Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru í febrúar að jafnaði 173.300 manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 160.700 starfandi og 12.600 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 77,4%, hlutfall starfandi 71,8% og atvinnuleysi var 7,3%.

Atvinnulausum hefur fækkað um 1.100 frá febrúar 2011 en þá mældust atvinnulausir 13.700 eða 7,9% vinnuaflsins. Lítil sem engin breyting var á fjölda starfandi fólks frá því í febrúar 2011 en hlutfall starfandi lækkaði um 0,6 prósentustig úr 72,4%. Meðalfjöldi vinnustunda var 40 klst. hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni en voru 40,5 klst. í febrúar 2011.

Samkvæmt frétt Hagstofunnar leiðir leitni atvinnuleysis í ljós að sl. 12 mánuði hefur atvinnulausum fækkað tiltölulega jafnt eða um 1.500 manns yfir tímabilið. Ekki er þó hægt að greina miklar breytingar á leitni fjölda atvinnulausra ef litið er aftur til síðustu þriggja mánaða. Árstíðaleiðréttur fjöldi atvinnulausra í febrúar 2012 var 12.700 eða 7% en var 11.700 eða 6,5% í janúar. Fjöldi starfandi var 168.700 í febrúar 2012 en var 167.200 í janúar. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu voru vinnustundir í febrúar 39,8 klst. en voru 40,5 klst. í janúar 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert