Takk fyrir að bjarga Íslandi!

Helgi Magnússon fráfarandi formaður Samtaka iðnaðarins
Helgi Magnússon fráfarandi formaður Samtaka iðnaðarins mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Síðustu þriggja ára verður minnst sem týndu áranna eða glötuðu áranna á Íslandi, áranna þegar tækifærin voru ekki nýtt,“ sagði Helgi Magnússon, fráfarandi formaður Samtaka iðnaðarins í ræðu sinni, en þingið var sett nú fyrir skömmu í Laugardalshöll undir yfirskriftinni „Verk að vinna.“

Hann ræddi um yfirlýsingu formanns VG á flokkráðsfundi flokksins í febrúar þar sem hann lýsti því yfir að ríkisstjórninni hefði tekist að bjarga Íslandi þannig að við værum ekki lengur stödd á hættusvæði.

„Þetta er hraustlega mælt hjá manni sem hefur verið einn helsti forsvarsmaður ríkisstjórnar sem hefur í 3 ár hamlað gegn endurreisn Íslands með því að framfylgja rangri efnahagsstefnu sem einkennst hefur af úlfúð í garð atvinnulífsins og lamandi skattpíningarstefnu,“ sagði Helgi.

„Verkefni okkar núna er að horfa til framtíðar frá réttum sjónarhóli. Reynum ekki sjálfsblekkingar eins og þær að einhverjum hafi tekist að bjarga Íslandi. Það er því miður ekki þannig, þó við kysum að svo væri. Þannig gæti það verið. En þannig hefur ekki verið haldið á spilum.“

Nefndi ýmis atriði sem betur mættu fara

Helgi sagði að hagvöxtur hér á landi yrði að vera yfir 5% til þess að við næðum hér skjótum efnahagsbata. Hann sagði að það yrði að fara 100 ár aftur í tímann til að finna hærra hlutfall brottfluttra Íslendinga umfram innfluttra en nú er. Hann sagði þúsundir fyrirtækja fást við fást við skuldavanda til viðbótar við öll þau fyrirtæki sem hafa komist í þrot.

Helgi sagði fjárfestingar vera í sögulegu lágmarki í 70 ár og hafi numið 12,9% af landsframleiðslu árið 2010 og í svipuðu hlutfalli á síðasta ári. Helgi sagði að á sama tíma og okkur vantar erlent áhættufjármagn inn í hagkerfið mæti erlendir fjárfestar óvild stjórnvalda, sýni þeir áhuga á að koma hingað.

Hann sagði að allt þetta kjörtímabili hafi stjórnvöld átt í illvígum deilum við forsvarsmenn sjávarútvegs um framtíðarstefnu í sjávarútvegsmálum og að illa hafi gengið að gera átak í nýtingu orkuauðlindanna til uppbyggingar í stóriðju og öðrum iðnaði. Ítrekaðar tafir komi í veg fyrir atvinnusköpun og verðmætasköpun á því sviði.

Helgi sagði mikla þörf á því að ná samstöðu um mikilvægar og öflugar samgönguframkvæmdir sem lið í atvinnusköpun. Hann sagði fólki og fyrirtækjum hafa verið íþyngt stórlega með margvíslegum skattaálögum. Yfir 100 skattalagabreytingar hafi verið gerðar á kjörtímabilinu til hækkunar, skv. skýrslu Viðskiptaráðs. Þá sagði hann að þrátt fyrir þessar miklu skattahækkanir blasi við sár niðurskurður í velferðar- og menntakerfinu.

„Ríkisstjórnin eyðir orku sinni í valdabrölt og innbyrðis átök í stað þess að leiða för þjóðarinnar út úr kreppunni. Stjórnin notar meiri tíma í að vandræðast yfir viðfangsefnunum en að leysa þau. Þingmenn segja að þingið sé orkulaust, vindlaust. Það skortir forystu. Hér er viðvarandi pólitísk kreppa,“ sagði Helgi í ræðu sinni.

„Já, það er svona sem maður fer að því að bjarga Íslandi! Takk, Steingrímur. Takk fyrir að bjarga Íslandi!“

Kaldhæðni örlaganna ef neyðarlögin hafi bjargað Íslandi

„Það yrði kaldhæðni örlaganna ef innan skamms kemur á daginn að það hafi verið neyðarlögin frá októberbyrjun 2008 sem björguðu Íslandi frá algjöru hruni.  Að neyðarlögin hafi bjargað því sem bjargað varð. Að það komi á daginn að neyðarlögin sem voru sett undir forystu Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafi bjargað Íslandi frá algjöru hruni – þessa sama Geirs Haarde og nú svarar til saka fyrir Landsdómi í fyrstu pólitísku réttarhöldunum á Íslandi,“ sagði Helgi.

Helgi nefndi nokkur atriði stjórnvöldum til hróss

„Nefna má stjórnvöldum til hróss að fjárlagahallinn hefur minnkað til muna. Það er hin hliðin á skattpíningarstefnunni og niðurskurði. Og samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gekk allvel og það sem gleður einkum í því efni er að það tókst að ljúka því samstarfi í meginatriðum. Við höfum sjóðinn væntanlega ekki lengur sem yfirfrakka á ríkisstjórn og Alþingi.

Þá má ekki gleyma því að Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu og standa samningaviðræður yfir í skugga mikillar ólgu í Evrópulöndum.

Þá er til umfjöllunar rammaáætlun um verndun og nýtingu orkuauðlinda. Mikið er í húfi að þar takist vel til og um slíka áætlun náist bærileg sátt. Unnið hefur verið að gerð þessarar áætlunar í mörg ár og verði niðurstaðan einkum sú að rammaáætlunin verði að mestu verndaráætlun en ekki nýtingaráætlun – þá verður enginn friður um hana. Þjóðin þarf á því að halda að nýta orkuauðlindirnar af skynsemi og sanngirni til öflugrar efnahagsuppbyggingar. Það næst enginn friður um öfganiðurstöður í aðra hvora áttina. Þess vegna verður að krefja löggjafarvaldið um niðurstöðu sem byggist á sátt um verndun og nýtingu. Annars verða áfram pólitísk átök um þessi stóru mál þar sem stríðandi fylkingar halda áfram að kasta þessu gulleggi þjóðarinnar á milli sín. Við það verður ekki unað,“ sagði Helgi.

Hvetur til þess að menn sameinist um framfaramál

Helgi hvatti til þess að fólk myndi sameinast um nauðsynleg verkefni til framfara og sagði: „Ef allt það afl sem farið hefur í niðurrif verður nú nýtt til uppbyggilegra verka verðum við fljót að komast á beina braut og í fremstu röð meðal vestrænna þjóða hvað varðar lífskjör og afkomu.“

Samtök iðnaðarins
Samtök iðnaðarins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert