„Þetta var hálfsannleiksrannsókn“

Andri Árnason verjandi Geirs H. Haarde í landsdómi í dag
Andri Árnason verjandi Geirs H. Haarde í landsdómi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Í raun og veru má segja að hér hafi ekki farið fram sannprófun gagna, heldur frumprófun gagna,“ sagði Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde í Landsdómi í morgun en nú fer þar fram málflutningur verjanda. Hann sagði að í málinu væri sönnunarbyrði snúið við  og sagði rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis „hálfsannleiksrannsókn“.

Andri reifaði sjónarmið um sönnunarfærslu og þá sönnunarbyrði sem hvílir á ákæruvaldinu. „Öflun sönnunargagna hefur ekki verið í neinu samræmi við viðurkenndar aðferðir. Ekkert þeirra gagna sem lögð voru fram í málinu voru borin undir ákærða á rannsóknarstigi og mörg þeirra hefur hann aldrei séð,“ sagði Andri.

Hann sagði tilbúnaður ákæruvaldsins í engu samræmi við tilbúnað ákærumála. Mál þetta hefði frá upphafi verið í röngum farvegi og ýmis mikilvæg atriði sem skiptu máli fyrir sakleysi ákærða hefðu aldrei verið afhjúpuð.

Hann sagði að vegna þess að málatilbúnaður væri að megninu byggt á rannsóknarskýrslu Alþingis væri rétt að ítreka að þar væri engin afstaða tekin til refsiábyrgðar.  

Í skýrslunni segði að stjórnvöld hafi átt tveggja kosta völ í aðdraganda bankahrunsins; annaðhvort að þrýsta á bankana eða að beita gegn þeim beinum aðgerðum. Andri segir að þar segi líka að þetta hafi verið afar erfitt í framkvæmd.

Sönnunarbyrði snúið við

„Ákæruvaldinu bar að rannsaka hvort slíkar aðgerðir hefðu haft einhverja þýðingu í þessu sambandi og hvort þær hefðu getað afstýrt tjóni. Þetta er algerlega látið liggja milli hluta og ákærði hefur þurft að færa sönnur fyrir því í dómnum og þannig hefur sönnunarbyrði verið snúið við. Það er auðvitað alveg ófært,“ sagði Andri.

„Það er ljóst varðandi meginatriði málsins, að undirbúningurinn af hálfu ákæruvaldsins er algerlega óviðeigandi.“

Gat ekki farið í leiftursókn

Hann sagði að Geir  hefði ekki haft nein gögn sem hefðu getað réttlætt að hann hefði „farið í leiftursókn“ gegn bönkunum í aðdraganda hrunsins, eins og ákæruvaldið virtist ætlast til að hann hefði gert.

Hann sagði að „billegar lausnir“ gætu ekki gengið í refsimálum, menn yrðu að gera nánari grein fyrir því hvernig hlutirnir hefðu getað æxlast.

„Skýrslan hefur ekki sjálfstætt sönnunargildi,“ sagði Andri. Hann sagði að „sannleiksrannsókn“ rannsóknarnefndar Alþingis við vinnslu skýrslunnar hefði verið hálfsannleiksrannsókn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert