15°C hiti á Seyðisfirði í dag

Seyðisfjörður
Seyðisfjörður Mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Spár um hlýindaveður um helgina hafa nú þegar gengið eftir því hitastigið hefur víða farið upp í tveggja stafa tölu í dag. Nú síðdegis var hlýjast á Seyðisfirði þar sem hitinn náði 15°C. Almennt var hlýjast á Austurlandi í dag því í Neskaupstað var hitinn 14,7° og 14°á Hallormsstað. 

Að sögn Elínar Bjargar Jónasdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, hefur hitinn víðast hvar verið á bilinu 8-13 stig í dag. Mest er af hlýja loftinu sem berst nú yfir landið á Austfjörðum en þar hjálpar hnúkaþeyr, hlýr og þurr vindur sem blæs af fjöllunum, líka til við að hækka hitastigið.

Elín segir þó að engin met hafi fallið í dag þótt þetta teljist gott miðað við árstíma. Hitametið í marsmánuði stendur enn síðan 27. mars 1948, en þá mældist 18,3 stiga hiti í mannaðri veðurstöð á Sandi í Aðaldal. 

Útlit er fyrir að það hlýni enn frekar yfir helgina og ekki útilokað að hitinn gæti nálgast metið einhvers staðar á landinu á mánudag. Elín segir hins vegar að svona veðri á þessum tíma fylgi líka hvassviðri og úrkoma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert