Brýna fólk til að sýna náttúrunni virðingu

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. mbl.is

„Nú, þegar vorið er á næsta leiti aukast ferðir manna um hálendið. Af því tilefni vill Ferðaklúbburinn 4x4 vekja athygli jeppaeigenda á því að fara sérstaklega varlega á meðan snjóa er að leysa og frost er að fara úr jörðu og virða í einu og öllu bann við hvers konar akstri utan vega,“ segir í tilkynningu frá Ferðaklúbbnum 4x4.

Vísað er til færslu sem birtist á samskiptavefnum Facebook í gær um ljót umhverfisspjöll eftir utanvegaakstur í Úlfarsfelli þar sem einhver jeppaeigandi hefði sýnt náttúru svæðisins algert virðingarleysi og tekið fram að þar hafi ekki verið á ferð félagsmaður í klúbbnum.

„Þeir ökumenn sem lítilsvirða landið á þann hátt sem sjá mátti á Facebook í gær spilla alvarlega fyrir málstað okkar sem viljum ferðast um Ísland með ábyrgum hætti. Stjórn klúbbsins minnir enn og aftur á að svona umgengni er með öllu ólíðandi og hvetur félagsmenn sína til að berjast gegn ólöglegum utanvegaakstri og tilkynna slíkt ávallt til lögreglu ef þeir verða vitni að slíku,“ segir í tilkynningunni sem undirrituð er af formanni Ferðaklúbbsins 4x4, Hafliða S. Magnússyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert