„Sjaldan heyrt aumari málflutning

„Ég hef sjaldan heyrt aumari málflutning hjá nokkrum forsætisráðherra en hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og þykir það leitt fyrir hennar hönd,“ sagði Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, um ummæli forsætisráðherra á Alþingi í dag, um fyrri fiskveiðistjórnunarfrumvörp.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, bar málið fyrst upp og sagði að Jón Bjarnason, sem er fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði haldið magnaða ræðu í gærkvöldi sem gefið hefði innsýn inn í vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Sigmundur sagði Jón hafa lýst því að forsætisráðherra hefði viljað fela að verið væri að vinna að fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu þar til búið væri að semja um kjarasamninga.

Einnig að Jóhanna hefði ekki viljað sjá frumvarpið þegar Jón hefði komið með það inn í ríkisstjórn.

Jóhanna sagði þetta alrangt og í raun hrein ósannindi, Jón Bjarnason hefði haft litla samvinnu við ríkisstjórnina við vinnu að frumvarpinu og hefði dregið málið. Til þess að reyna að flýta frumvarpsgerðinni þurfti að setja á fót sérstaka ráðherranefnd. Og þegar Jón kom loksins með frumvarpið í ríkisstjórn vildi hann setja það á vefinn hjá sér áður en ríkisstjórnin ræddi það.

Þá sagði Jóhanna að alfarið væri hægt að setja það á reikning Jóns Bjarnasonar hversu seint ríkisstjórnin kæmi með sjávarútvegsfrumvarpið inn í þingið. Jón hefði verið að dunda við þetta í tvö ár.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, kom síðan í ræðustól og velti því fyrir sér hvort ekki þyrfti að halda sérstaka umræðu um það hvort yfirleitt væri meirihluti á þinginu, eftir hnútukast á milli forsætisráðherra og fyrrverandi ráðherra. Þá væri aðkallandi að vita hvort Hreyfingin hefði heitið ríkisstjórninni stuðningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert