Lokað og læst við Bessastaði

Bessastaðir
Bessastaðir Ómar Óskarsson

Bæjarstjórn Álftaness hefur sent skrifstofu forseta Íslands erindi þar sem mælt er með því að aðgengi að Bessastaðanesi verði ekki hamlað. Um er að ræða vinsælt útivistarsvæði sem íbúar hafa haft aðgang að, en læst var í byrjun mars, án skýringa.

Aðgengi að Bessastaðanesi hefur verið með ágætum um árabil. Takmarkanir hafa þó verið gerðar yfir varptíma fugla, í byrjun maí, og þegar hrossum er beitt í Bessastaðanesi frá september til desember ár hvert.

Í byrjun mars var hliðunum hins vegar læst og aðgengið að Bessastaðanesi því ekkert.

Snorri Finnlaugsson forseti bæjarstjórnar segir að um sé að ræða mjög vinsælt útivistarsvæði. Íbúar gangi þarna ákveðinn hring og þegjandi samkomulag verið um það milli sveitarfélagsins og skrifstofu forseta að opið sé í gegnum Bessastaði og við Skansinn. „Við sendum erindi og óskum eftir góðu sambandi um þetta. Þetta er hluti af sveitarfélaginu þó svo að jörðin sé í eigu ríkisins. Við viljum endilega eiga gott samstarf við forsetann og það hefur verið í gegnum tíðina.“

Bessastaðanesið er um þriðjungur af sveitarfélaginu. Í erindinu sem sent var skrifstofu forseta er mælt með því að aðgengi að Bessastaðanesi verði ekki hamlað með þeim hætti sem gert er nú. „Heldur verði á vordögum vakin athygli á varptíma fugla með skilti og ábendingu til þeirra sem nýta svæðið til útivistar, um að fara eingöngu um vegslóða í Bessastaðanesi. Einnig verði vegna hrossabeitar vakin athygli á því hvers vegna hlið séu læst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert