Margfalt meiri verðhækkanir hér á landi

Matarkarfan hefur hækkað um 32% á Íslandi frá árinu 2008, …
Matarkarfan hefur hækkað um 32% á Íslandi frá árinu 2008, en um 5,2% á sama tíma á evrusvæðinu. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Frá árinu 2008 hefur verðlag hækkað margfalt meira á Íslandi en í löndum Evrópuasambandsins. Þannig er heildarhækkun á vöru og þjónustu á íslandi 34,9% en 5,8% á evrusvæðinu og á meðan matarkarfan hækkaði um 5,2% á evrusvæðinu hækkaði hún um 32% á Íslandi.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands fyrir samtökin Já Ísland. Um er að ræða samræmda vísitölu neysluverðs sem Eurostat, Hagstofa Evrópusambandsins, tekur saman reglulega. Mismunurinn er einna mestur þegar litið er til áfengis og tóbaks, sem hækkaði um 55,9% á tímabilinu á Íslandi, en um 14,9% á evrusvæðinu.

Föt og skór hafa líka hækkað mun meira í verði hér á landi, um 31,4%, en um 7,9% á evrusvæðinu. Húsnæði, hiti og rafmagn hefur hækkað um 44,7% hér á landi, en 10,1% á evrusvæðinu og húsgögn og heimilisbúnaður eru 40,1% dýrari hér nú en árið 2008, en 3,8% dýrari á evrusvæðinu.

Samtökin Já Ísland segjast leggja mikla áherslu á að horft sé til staðreynda þegar fjallað er um mögulega aðild Íslands að ESB. Hagsmunir íslenskra heimilia muni vega þungt þegar kemur að því að taka ákvörðun um hvort ganga skul í ESB eða ekki og augljóst sé að gjaldmiðlamál skipti þar miklu. „Til að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort aðild gagnist heimilum í landinu er mikilvægt að skoða samanburð við þær þjóðir sem hafa evru og kjör sem bjóðast í þeim ríkjum,“ segir í samantekt Já Ísland. Þessi samantekt sé tilraun til að hafa jákvæð áhrif á umræðuna, til gagns og fróðleiks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert