Vilja að frumvörpin verði lögð til hliðar

Fram kemur í yfirlýsingu frá Landssambandi smábátaeigenda að það skori á stjórnvöld að setja frumvörp til laga um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi til hliðar „og gera þeim kleift sem í greininni starfa að koma að málinu með eðlilegum og sanngjörnum hætti.“ Þá er tekið fram að smábátaeigendur hafi „ætíð lýst sig reiðubúna að leggja sitt af mörkum til að meiri friður geti ríkt um þennan undirstöðu atvinnuveg þjóðarinnar. Það boð stendur enn.“

Þá segir í yfirlýsingunni að frumvörpin gangi gróflega gegn fyrirheitum núverandi ríkisstjórnar um að smábátaútgerðin „yrði efld að vöxtum og kostir hennar nýttir í þágu þjóðar í þrengingum.“

Yfirlýsingin í heild:

Það var smábátaeigendum fagnaðarefni að sjá þau fyrirheit sem gefin voru í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum 1. febrúar 2009.
Þau fyrirheit gáfu til kynna að smábátaútgerðin yrði efld að vöxtum og kostir hennar nýttir í þágu þjóðar í þrengingum. Það frumvarp sem nú hefur litið dagsins ljós gengur gróflega gegn þessum fyrirheitum og hefur þau í flestu að engu.

Niðurstöður þess starfs sem Landssamband smábátaeigenda (LS) tók þátt í og trúði lengi vel að myndi móta tilraun stjórnvalda til að nálgast sátt um nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar hefur hlotið sambærileg örlög.

Hvað sem hverjum kann að þykja um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar og hvað sem eftiráspekingar gerast djúpvitrir í bölsýnisþvaðri, er með öllu óboðlegt, hvort það er sjávarútvegur eða annar atvinnuvegur, að þurfa að búa við þau ósköp að fyrirkomulag sem miklu hefur verið kostað til að aðlagast og samhæfa, sé hreinlega kastað eins og spilastokk í loft upp með þeirri fullyrðingu að spilin raðist mun skipulegar við lendingu en þau voru í hendi.

Sá þáttur sem mesta athygli hefur hlotið er eðlilega sú hrikalega hækkun á auðlindagjaldi sem boðuð er, ásamt aðferðafræðinni við útreikningana.  Þó vissulega beri að fagna þeirri viðurkenningu sem fram kemur í frumvarpinu á lágmarkstilkostnaði, liggur jafn ljóst fyrir að margar ágætlega reknar smábátaútgerðir dagsins í dag munu ekki standa undir þessum klyfjum.

Þessi fullyrðing er ekki sett fram á þeirri forsendu að búmenn kunni að barma sér.
Hún er sett fram vegna þess að hún er bláköld staðreynd sem hægt er að sýna fram á með sáraeinföldum dæmum.

Ekki verður betur séð en að þær forsendur sem gefnar eru í útskýringum með frumvarpinu bendi til þess að margir smábátaeigendur sitji á fúlgum fjár eftir góðærið 2010.  Það væri sannarlega óskandi, en er að sjálfsögðu ekki raunin.

Sú ótrúlega hugmynd, að sátt um nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar sé innan seilingar sé þess eins gætt að halda þeim er starfa við atvinnuveginn frá borðinu, virðist hafa orðið ofaná við ákvörðun stjórnvalda um samskipti þeirra við hagsmunaaðila. Sömu aðilar tala fjálglega um „jafnræði“ öllum tilhanda. Önnur eins þverstæða og lýðskrum í málflutningi á sér vart hliðstæðu.

LS skorar á stjórnvöld að setja frumvarpið í biðstöðu nú þegar og gera þeim kleift sem í greininni starfa að koma að málinu með eðlilegum og sanngjörnum hætti. Smábátaeigendur hafa ætíð lýst sig reiðubúna að leggja sitt af mörkum til að meiri friður geti ríkt um þennan undirstöðu atvinnuveg þjóðarinnar.  Það boð stendur enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert