Sjálfstæðismenn samþykktu viljayfirlýsinguna

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. SteinarH

„Sjálfstæðisflokkurinn vildi efla almenningssamgöngur og fresta framkvæmdum í fyrra - en gagnrýnir sama hlut nú,“ segir í tilkynningu sem Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur sent frá sér. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýndu meirihluta borgarstjórnar fyrir að ætla að undirrita samkomulag við ríkisvaldið sem felur í sér frestun mikilvægra vegaframkvæmda í Reykjavík.

Í tilkynningu Dags segir að þetta umdeilda samkomulag byggi á viljayfirlýsingu sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn stóðu að og greiddu atkvæði sitt á fundi borgarráðs þann 7. júlí 2011.

„Sú viljayfirlýsing sem vísað er til var samþykkt í öllum bæjarráðum á höfuðborgarsvæðinu sl. sumar. Í borgarráði var hún studd af fulltrúum allra flokka. Þar kemur skýrt fram að ætlunin með samningnum væri að verulegt fjármagn eða um milljarður á ári kæmi til eflingar almenningssamganga gegn frestun stórframkvæmda á svæðinu. Þetta er ný hugsun sem byggir á raunsæju mati á svigrúmi til að ráðast í stórframkvæmdir á allra næstu árum, tekur mið af minnkun umferðar frá hruni og þeim vilja að aukning í umferð á næstu árum verði mætt með góðum almenningssamgöngum frekar en mislægum gatnamótum fyrir milljarða og milljarðatugi. Framlög og framkvæmdir sem frestast koma hins vegar til endurskoðunar á tveggja ára fresti, út frá þeim árangri sem næst og þróun umferðar,“ segir Dagur m.a.

Ofangreind atriði komi skýrt fram í viljayfirlýsingunni sem Sjálfstæðisflokkurinn, líkt og aðrir flokkar í borgarstjórn, samþykktu. „Flokkurinn lætur sér því sæma að samþykkja eitt í dag og mótmæla því á morgun. Þannig er ekki hægt að stjórna borg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert