Skuldarar geti skilað lyklunum

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. Skapti Hallgrímsson

„Það er umhugsunarefni að hópurinn sem býr við verðtryggð lán skuli vera með 100% verðtryggingu á sínum skuldbindingum og ofan á hana 4-6% vexti en verðtryggð lán á fasteignamarkaði nálgast nú 700 milljarða,“ segir Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um skuldir heimilanna.

Kristján Þór lagði fram fyrirspurn til Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, um skuldastöðu heimilanna og er hægt að nálgast svarið hér.

Leiðir svarið í ljós að verðtryggðar skuldir voru 692 milljarðar í árslok 2011 og hafa þær hækkað úr 554 milljörðum 2007. Verðbætur skýra það að miklu leyti en þær hafa hækkað úr 71,54 milljörðum í 214,8 milljarða 2011.

Verður að ætla að verðtryggðar húsnæðisskuldir séu nú vel á áttunda hundrað milljarða króna enda hefur verðbólgan verið á bilinu 6-7% að undanförnu.

100% verðtrygging

Kristján Þór setur þessa aukningu í samhengi við framboð á óverðtryggðum lánum. 

„Það er umhugsunarefni að hópurinn sem býr við verðtryggð lán skuli vera með 100% verðtryggingu á sínum skuldbindingum og ofan á hana 4-6% vexti en verðtryggð lán á fasteignamarkaði nálgast nú 700 milljarða. Það er ekki síst athyglisvert þegar haft er í huga að bankar hafa á síðustu misserum treyst sér til að bjóða upp á 4-6% óverðtryggða vexti.

Skuldavandinn er að aukast og það er ljóst að í mörgum tilvikum þar sem skuldastaðan er komin yfir 100% af veðsetningu að ekkert er hægt að gera. Stór hluti af þessu er tapað fé. Það þarf að létta þessum hópi leiðina að því að búa við mannsæmandi kjör og að fá samningsstöðu gagnvart lánastofnunum. Þá horfi ég m.a. til lyklafrumvarpsins sem við sjálfstæðismenn höfum verið að vinna," segir Kristján Þór en rætt er við hann um málið í föstudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert