Væntanlega skotið af landi

Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Landhelgisgæslan tóku þátt í leitinni í gærkvöldi …
Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Landhelgisgæslan tóku þátt í leitinni í gærkvöldi og nótt Af vef Landsbjargar

Leit var hætt klukkan 02:52 í nótt þegar fullreynt þótti að neyðarblysum gæti hafa verið skotið upp af sjó. Útkallið var óhemjuviðamikið og tók fjöldi báta og björgunarsveitarmanna þátt í því, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Fjölmargar tilkynningar bárust um að tveimur neyðarblysum hafi verið skotið á loft úti fyrir Straumsvík. Ákveðið var að þyrla Landhelgisgæslunnar tæki þátt í leitinni í kringum miðnættið en síðan hætt við það á síðustu stundu þar sem sú þyrla sem er til taks hér í Reykjavík hentar ekki vel til slíkrar leitar. Enda þótti orðið fullvíst að flugeldunum hefði verið skotið af landi miðað við tilkynningar sem bárust um að flugeldum hefði verið skotið upp á Álftanesi og á Völlunum í Hafnarfirði. Hins vegar mun þyrlan leita nú í morgunsárið af sér allan grun.

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var leitarsvæðið fínkembt í gærkvöldi og nótt og leit ekki hætt fyrr en menn höfðu leitað af sér nánast allan grun.

Bannað er að skjóta upp flugeldum á þessum árstíma án þess að fá til þess leyfi. Ekki er vitað til þess að slíkt leyfi hafi verið fyrir þessum flugeldum í gærkvöldi en leit sem þessi er ekki aðeins mjög kostnaðarsöm heldur einnig tímafrek.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst um kl. 22 í gærkvöldi tilkynning um neyðarblys sem sást á lofti úti fyrir Straumsvík. Í kjölfarið voru kallaðar út björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Reykjavík og Hafnarfirði sem fóru til leitar með björgunarskip og báta, einnig voru kallaðir út menn til að taka þátt í aðgerðum á landi.

Um klukkustund síðar eða kl. 23.00 var öðru blysi skotið á loft, var þá ákveðið að fjölga leitarsveitum björgunarsveita. Alls tóku um 50 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert