Sandfangarinn náð árangri í Vík

Frá Vík í Mýrdal
Frá Vík í Mýrdal mbl.is/Jónas í Fagradal

„Sandfangarinn hefur bara staðið sig ágætlega en það hefur reyndar hrunið dálítið úr honum í vetur, enda hefur verið alveg gríðarlegt brim á okkur, alveg frá í nóvember og þar til nú, þannig að hann hefur bjargað ansi miklu,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri í Vík, spurður um árangurinn af sandfangara sem gerður var út í sjó sunnan við þorpið í þeim tilgangi að verja fjöruna við Vík, en hún hefur látið mikið á sjá á síðustu árum og stóð byggðinni hætta af ágangi sjávar við þorpið.

„Það fór töluvert af landi austan við sandfangarann, en ekkert vestan við hann, sunnanundir þorpinu og við þökkum sandfangaranum það að hluta. Hinsvegar hefur verið gríðarlega mikið sandfok og vandræði af þeim sökum, en það er ekki í fyrsta skipti sem það er,“ sagði Ásgeir. Aðspurður hvort ekki standi til að fara í aðgerðir vegna sandfoksins sagði hann: „Það náttúrlega verður að fara í uppgræðslu þarna núna og fleiri sandgirðingar.“

Hugmyndir um annan sandfangara

„Í áætlunum Siglingastofnunar eru hugmyndir uppi um að gera annan sandfangara sem yrði aðeins austar á fjörunni og myndi þá verja iðnaðarhverfi sem þarna er. Það hefur svosem ekki verið neitt ákveðið í því og það bíður auðvitað kannski þess að við sjáum hver endanleg reynsla verður af þessum garði,“ sagði Ásgeir spurður um hvort til standi að koma öðrum slíkum fyrir.

Spurður að því hvort til standi að lagfæra það sem hefur aflaga farið í vetur á sandfangaranum, sagði hann: „Það verður nú bara skoðað. Siglingastofnun mun nú sjálfsagt skoða það hvort mönnum finnist ástæða til. En þetta er náttúrlega grjót sem hlaðið er út á sand og það getur alltaf gerst þegar mikil áraun er. En það er svosem ekki eins og hann sé ónýtur, en það hefur hrunið aðeins úr hausnum á honum, óneitanlega. Hann hefur aðeins látið á sjá.“

Sandfangari suður af Víkurþorpi.
Sandfangari suður af Víkurþorpi. Jónas Erlendsson
Ferðamenn í fjörunni í Vík í Mýrdal
Ferðamenn í fjörunni í Vík í Mýrdal mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert