Greiðsluaðlögun brjóti fólk niður

Ólöf Nordal
Ólöf Nordal Mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er tímabært að við gerum okkur grein fyrir því að hluti þeirra krafna, sem lánastofnanir höfðu í bókum sínum vegna skulda fjölskyldna, verða ekki innheimtar. Þær eru tapaðar," segir Ólöf Nordal þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Lyklaleiðin svo nefnda kom til umræðu í upphafi þingfundar nú síðdegis undir liðnum „störf þingsins“.

Lyklaleiðin felur í sér að sumir skuldarar geti skilað húsnæði sínu og fengið þar með allar skuldir sem á því hvíla felldar niður. Ólöf Nordal kallaði eftir því á Alþingi nú síðdegis að stjórnarmeirihlutinn í þeim nefndum sem við ættu taki lyklaleiðina eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram verði tekin til umfjöllunar. Hún benti á að m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi viðurkennt að langvarandi skuldavandi heimilanna hægi á efnahagsbatanum. „Hvorki ríkissjóður né heimili í landinu eru eyland. Við getum ekki rekið okkar sameiginlegu sjóði með halla langt inn í framtíðina," sagði Ólöf. Það væri staðreynd að ákveðinn hluti skulda íslenskra heimila verði ekki innheimtur.

Tvö ár í greiðsluaðlögun án úrlausnar

Lilja Mósesdóttir hefur í þrígang lagt fram s.k. lyklafrumvarp sem hún segir ekki síst hugsað fyrir þá sem fóru í gegnum 110% leiðina en eru enn í vandræðum. Í upphafi þingfundar í dag hvatti Lilja formann allsherjar- og menntamálanefndar að hraða vinnu við frumvarpið.  „Ástæðan fyrir því að það liggur á að samþykkja þetta frumvarp er sú að þeir sem fóru í greiðsluaðlögun og héldu að það myndi leysa úr greiðsluvanda sínum eru enn að bíða eftir úrlausn og hrópa nú á samþykkt lyklafrumvarpsins," sagði Lilja.

Hún nefndi sem dæmi sögu manns sem verið hefur í greiðsluaðlögunarferli í tvö ár og fékk nýlega bréf um að slíkur samningur verði ekki gerður nema fasteign fjölskyldunnar og bifreið fari í sölu. „Bankinn gaf fyrirheit um skuldaeftirgjöf en vildi ekki nefna upphæðina, tveimur árum eftir að fjölskyldan fór í aðlögun," sagði Lilja. Hún sagði greiðsluaðlögunarúrræðið ekki að virka „heldur að tefja úrlausn mála og brjóta fólk niður sem gerði ekkert annað en að fjárfesta í fasteign og bifreið".

Gæti haft slæmar afleiðingar

Björgvin G. Sigurðsson formaður allsherjar- og menntamálanefndar gagnrýndi Lilju fyrir að tala niður greiðsluaðlögunina, sem hann sagði frábært úrræði sem reynst hefði mörgu fólki vel, þótt hún virki ekki fyrir alla.

Hann benti á að umsagnarfrestur um lyklafrumvarpið renni út á morgun og þá fyrst geti nefndin tekið það til efnislegrar umfjöllunar. Tvær athugasemdir væru komnar, frá Fjármálaeftirlitinu sem gerði ekki og svo frá Samtökum fjárfesta, sem vari við því að verði frumvarpið samþykkt kunni það að leiða til þess að aðgengi almennings að lánsfé skerðist óhóflega. 

„Við þurfum að vanda til verka og gera okkur grein fyrir áhrifum samþykktar slíks frumvarps," sagði Björgvin. Lyklaleiðin komi vel til álita og bætist þá í flóru fjölda annarra úrræða fyrir fólk í greiðsluvandræðum.

Lilja Mósesdóttir alþingismaður.
Lilja Mósesdóttir alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson
Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson Mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert