Sjómanni bjargað við Látrabjarg

Frá Látrabjargi.
Frá Látrabjargi. mbl.is/Una

Manni var bjargað úr sjónum við Látrabjarg laust eftir kl. 21 í kvöld eftir að smábáturinn Krummi fór á hliðina og sökk skömmu síðar. Áhöfn fiskibátsins Lóu kom manninum til bjargar og var þá hann orðinn kaldur og þrekaður.

Í tilkynningu Landsbjargar segir að björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Vörður frá Patreksfirði, hafi verið kallað út um klukkan 21 í kvöld þegar tilkynning barst um að smábátur væri að sökkva við Látrabjarg. Einn maður var um borð. Nærstaddir bátar voru einnig kallaðir til og fljótlega var einn þeirra kominn á staðinn. Var báturinn þá á hliðinni og skipverjinn orðinn kaldur og þrekaður. Hann var tekinn um borð og er verið að hlúa að honum. Stuttu síðar sökk trillan. 

 Ákveðið hefur verið að björgunarskipið haldi áfram ferð sinni á staðinn og komi skipverjanum í land.  

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að neyðarkallið hafi komið frá fiskibátnum Lóu sem staðsettur var um 0,5  sjómílur norðvestur af Látrabjargi. Sagði hann nærstaddan bát, Krumma, vera kominn á hliðina og skipverji bátsins kominn í sjóinn. Samstundis kallaði stjórnstöð LHG út Vörð, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Patreksfirði og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Örfáum mínútum síðar eða kl. 21:04 tilkynnti skipverji Lóu að hann hefði náð manninum úr sjónum, hann væri kaldur en óslasaður. Þeir héldu þegar í stað til Patreksfjarðar.

 Var þá útkall þyrlu LHG afturkallað en Vörður er á leið á staðinn til að ná upp björgunarbát Krumma sem flýtur á sjónum og neyðarsendir hans sendir reglulega út Cospas Sarsat neyðarskeyti.

 Krummi er frambyggður plastbátur, um 6 metra langur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert